smá minning um uppreisn

Ég viðurkenni, ég viðurkenni margt. Ég viðurkenni að ég vil helst: hanga, fara út að -labba hratt-, drekka smá rauðvín sem kostar sirka 2000, fá eitthvað gott að borða, setja á mig handkrem, vökva blómin, hlakka til, hlakka til jóla eða sumars til skiptis, fara í bað með ipadinn og lesa um aðra, um hugrekki, geðveiki og þjáningar, bara ekki mínar eigin. Ég viðurkenni að ég er löt og eigingjörn og vil helst og mezt vera í friði. Með Bobedre eða byltinguna til skiptis, en bara til að lesa um. Að lesa til að vera allsstaðar í einu, þó ég sé bara í baði eða á stól, ég er útum allt þó að ég fari alltaf sama hringinn þegar ég –labba hratt- og hafi varla farið nokkurn skapaðan hlut, bara til Empire til að hanga þar í baði eða á stól eða úti að labba, sama hringinn.

En ok, ég hef farið ogguítið. Tvisvar til Mexíkó til dæmis, að skoða píramída og sjó og til Noregs. Og svona smotterí hingað og þangað. Og svo niðrí bæ, oft einu sinni, einu sinni átti ég meira að segja heima í bænum, í Þingholtunum, þá vissi ég ekki að það var töff, eiginlega aldrei um þessar mundir og einu sinni, fyrir ekkert mjög löngu, nokkrum sinnum. Úr Grafarvogi og lagði svo kannski hjá Tollhúsinu og labbaði smáspöl. Og fór svo oftast aftur til baka uppí Grafarvog.

Stundum fór ég annað, ekki beint heim, einu sinni td. labbaði ég upp Hverfisgötuna með Magga og Öddu. Það ringdi en það var frekar hlýtt minnir mig og við löbbuðum líka rösklega, kannski var mér þessvegna frekar hlýtt, ég man það vel að mér var ekkert kalt afþví mér er oftast svo kalt í nóvember. Ofarlega á Hverfisgötu ætluðum við ásamt mörgum öðrum að frelsa mann, ég man það líka vel, það var alveg á hreinu hugsaði ég, djöfull skulum við frelsa hann. Okkur langaði að frelsa hann afþví hann hafði prílað uppá þak og hengt upp fána, þvílík dásemd, þegar hann dró fánann við hún öskraði ég af gleði, orgaði, frussaði af hamingju. En svo var honum stungið inn, fyrir að klifra uppá þak á Alþingishúsinu með fána með sér, sem var náttúrlega fáránlegt, hvernig er hægt að stinga inn þeim sem er svona alveg í mómentinu, það er ógeðslegt, eins og að eyðileggja orkídeu þegar hún er að blómstra í þriðja sinn eða banna unglingum að fara í sleik.

Og þessvegna löbbuðum við uppeftir í rigningu, eða kannski fór að rigna á meðan við stóðum fyrir utan og vorum að velta fyrir okkur hinu og þessu. Við vorum 3 og svo voru þarna umþb. 497 aðrir sem voru líka að velta öllu mögulegu fyrir sér og rifja upp og leggja á minnið. Ég man að strætisvagn kom, en ekki til að vera með, hann reyndi að keyra inní hóp af fólki sem snéri sér við og kenndi honum lexíu, hristi hann til þangað til hann skammaðist sín, í það minnsta smá. Ég sá að miðaldra kona skrifaði eitthvað á vegg hússins sem hélt Hauki, kannski var það -Frelsum Hauk-, kannski bara -Kúkum á kerfið-, hún var allavega vopnuð einum penna og svo tilfinningum, miklu fleiri en einni. Ég sá líka aðra konu, hún var meira en miðaldra, hún var fullorðin eins og sagt er, með skilti, á því stóð -IMF, kúgari, morðingi- ég var mjög sammála tilfinningunum á skiltinu hennar og þá sennilega henni sjálfri líka. Og svo þegar hið mögulega frelsunarmóment rann upp sá ég mann, kominn af léttasta skeiði eins og sumir myndu kannski segja, og hann var með risabjálka með sér og konan hans sagði við hann: hættu þessu, nú förum við heim, og hann svaraði: nei! nú förum við inn! Og ég hugsaði já! já! nú sko, nú förum við inn!

Við reyndum, ég tók undir handlegginn á konunni með IMF skiltið og við horfðumst í augu og sögðum –við förum inn!-. Maggi sagði -ertu viss- og ég horfði í augun á honum og hann sá að ég var sko viss, inn, inn , kondu inn, við skulum allavega reyna.

Við reyndum. En í staðin fyrir að við færum inn var Haukur sendur út. Afþví að alltaf þegar mómentið fer af stað svindlar einhver, nútíminn er fullur af svindlurum, löggan svindlar og sprautar ógeði í augun á fólki eða lemur það í hausinn og þau sem eiga pening svindla með peningunum sínum. Afþví mómentið þegar einhver ætlar inn er hættulegt fyrir svindlara, það er hættulegt fyrir svindlara þegar konur með penna og tilfinningar eða skilti og sannfæringu ákveða að leiðast á leiðinni inn. Þá er nauðsynlegt að nota völd og tengls til að styrkja varnirnar og rifja upp staðreyndir allra málanna, minna þau sem eiga ekkert nema nokkra penna og tilfinningar á að: –hvort sem okkur líkar betur eða verr eigum við, nei rugl ég meina þið, aðeins eina ábyrga leið og það er hófsemdin, ekki gleyma Ghandi eða kéllingunni þarna, þessari svörtu í strætó sem vildi ekki setjast, þau vilja að þið setjist núna, þau sögðu okkur það þegar tókum við tókum kúrsinn í mannauðsstjórnun og samningatækni, þau báðu að heilsa og bentu á mikilvægi stöðugleika-(*1).

Það fór semsagt enginn inn, nema Haukur og svo var honum hent út þegar ekki hentaði lengur að geyma hann inni. Svindl, ekki satt?
En auðvitað eru það bara bjánar sem enn er umhugað um að svindla ekki. Cogito, ergo bján segja sumir og er þá svarað Auðveldara er fyrir ríkan mann að senda einn asna út en fyrir marga bjána að komast inn.

—–

Cogito, ergo bján, ég viðurkenni að ég er bjáni, að ég er alltaf blönk, að ég fæ hluti á heilann, að ég kann ekki margföldunartöfluna, að ég hugsa um bjánalega hluti. Ég viðurkenni að mér fannst ógeðslegt að stinga Hauki inn og að mér fannt litla frelsunaruppreisnin í rigningunni á Hverfisgötu dásamleg (*2), alveg þangað til svindlið fór í gang. Mér fannst hún andstæða þess að vera ógeðsleg, mér fannst hún akkúrat rétt. Mér fannst dásamlegt að vera heitt, heitt á hausnum, heitt í hamsi. Mér fannst dásamlegt að sjá konu skrifa á hús og mann að springa úr viljanum til að gera og fara ekki bara heim. Mér fannst dásamlegt að vera með í þessu báli búnu til úr tifinningum. Og sem fyrstaflokks bjáni viðurkenni ég að vera leið yfir því að hafa ekki verið með í að kveikja í jólatrénu. Einu jólatré fórnað á altari tilfinninga, ég vildi að ég hefði getað tendrað á í það minnsta einni eldspýtu, cogito, ergo bján eða eins og kellingin hún Rósa Parks sagði alltaf, eða var það Rósa Lúx: Malo periculosam, libertatem quam quietam servitutem.

*1. http://visir.is/vid-eigum-val/article/2013711099967
*2. http://pawel.is/2013/11/05/thu-modgadir-hrunid-mitt/

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s