tóndæmi um mannlega tilfinningu

svartur hnefi

Fyrir nokkrum árum síðan var ég að hlusta á útvarp í bíl, þátt um herra Mandela. Ma. var spilað tóndæmi, ef svo mætti kalla það, tóndæmi um mannlega tilfinningu. Ég hef aldrei fyrr né síðar heyrt annað eins; herra Mandela kemur inná hótel minnir mig, nýlega laus úr fangelsinu, hann er umkringdur lífvörðum og aðstoðarmönnum, það er fullt af fólki alls staðar. Svo heyrist hljóð, ég veit ekkert hvað ég á að kalla það sem ég heyrði í útvarpinu, kona sér hann, hennar eigin Mandela, hann er á sama stað og hún, í sama raunveruleika er hann kominn, hennar eigin frelsari, og hún gefur frá sér hljóð sem eru þannig, voru þannig að ég verð ennþá pínku máttlaus þegar ég  minnist þeirra. Einhver svona kraftaverkahljóð, ólýsanleg, einhver mannleg tilfinning sem upplifist kannski á 100 ára fresti.  Eða sjaldnar.

—–

Þegar ég var lítil átti ég mömmu og pabba sem voru kommar. Kommar með stóru Kái. Þau voru alltaf eitthvað að kommast; yfir blöðum, útvarpi, sjónvarpi, bókum, bíómyndum. Komm-komm-komm daginn út og inn. Ég hékk mikið með þeim, höfð með hitt og þetta, þau voru ekki mikið fyrir að skilja útundan, maður fékk alltaf að vera með útum allt, hvert sem var; ha, viltu ekki fara í skólann, kondu bara með í vinnuna í staðinn eða í bankann að framlengja víxil, brumm brumm á Wartburgnum eða til ömmu og afa eða í bíó, kommkomm.

Við fórum oft í bíó að sjá allt mögulegt, ég man að ég skammaðist mín pínkulítið yfir því hvað pabbi minn grét ægilega á La Traviata, sem betur fór var salurinn í Bíóhöllinni hálf tómur, ég man hvað ég var ægilega móðguð yfir því að fá ekki að koma með að sjá Cotton Club, enda vön að fá að vera með, ég var níu ára og fannst svívirðilegt að vera skilin svona útundan. Ofbeldi, hvað með það, ég var tekin með á Rocky þegar ég var fimm, ofbeldi í bíó, oft séð svoleiðis, ég var enginn ræfill, ég vil koma með á Cotton Club!

Bíó, ég elskaði að fara í bíó. Í bíó má allt í smá stund og mér fannst gott þegar allt mátti aðeins.  Og svo var ýmislegt hægt að læra, nokkurkonar myndrænt viðbótarkennsluefni, um hitt og þetta sem aldrei var kennt í neinum skóla nema heimaskóla kommanna, þeirri ægilegu menntastofnun. Td. var hægt að læra um kúgun. Td. um kall sem hét Mahatma Gandhi og einhver sá ástæðu til að búa til rosalega langa mynd um, mynd þar sem hetjur heimsveldisins skutu fullt af því sem sumir kalla fólk og aðrir kalla hryðjuverkamenn, kallinn var lítill og kunni að vefa og upplifði ýmislegt, heldur betur, mér fannst gaman í bíóinu. Og það var hægt að læra um Apartheid og svoleiðis, um mann sem hét Steve Biko og um börn sem voru skotin í bakið af -helvítis fasistum-, og þessvegna mátti allsekki kaupa niðursoðna ávexti nema kíkja fyrst hvaðan þeir komu. (Ávaxtavarúðin var reyndar komin til miklu fyrr en ég sá Biko í bíó, í Áskjöri í Seljunum í Breiðholtinu varð alltaf að rannsaka allar dósir voða vandlega, hugsið ykkur ef maður bæri fram niðursoðna Apartheid peru með rjóma á gamlárs. Guð einn myndi þá vita hvar maður dansaði næstu jól).

Um daginn fór ég að sjá Aðventubíó með barni, byltingarmynd um stúlku og félaga hennar sem þurfa að berjast við kúgara og arðræningja og barnamorðingja, ægileg spenna í ógurlegri dystópískri framtíð, byltingin er alveg að koma því fólk er farið út á götu að góla og kveikja í.  Áður en myndin hófst voru auglýsingar; um megrun og ljós og klippingu og hamborgara og bílaþvott og  fleira. Og svo koma auglýsing um Nelson Mandela, sýnishorn úr mynd um hann. Og þar sást skotið á fólk, fólkið hafði verið að góla saman í stórum hóp og sumir voru með hnefa á lofti, og svo var skotið. Barnið hallaði að mér og spurði: var þetta svona? Og ég sagði: já, þetta var svona. Barnið sagði Ok og ég sagði: og þetta er eiginlega svona ennþá, það er bara stutt síðan fullt af fólki sem var í verkfalli var skotið eins og ekkert væri, bara í fyrra. Hverjir skutu það, spurði þá barnið, voru þeir svartir sem voru að skjóta? Já, afþví að, umm, sko kapítalisminn, nú sko er löggan bara að gæta hagsmuna hans, þegar aðskilnaðarstefnan hætti sko, þá fékk ríka hvíta fólkið að eiga allt áfram, Nelson Mandela hann kom ekkert að efnahagsmálunum þegar hann slapp sko, heldur bara svona nýfrjálshyggjulið og svo hefði svarta fólkið heldur aldrei fengið neina hjálp frá Vesturlöndum ef þau hefðu þjóðnýtt allt saman og farið út í róttæka redistribution á landi og eignum, sko. Alveg hræðilegt sko.

Svo hófst byltingarmyndin fyrir börn.

Og hér endar þá bíókaflinn.

—–

Og hér kemur þá smotterí um risastóra hluti; risamannkynssögulega og hrikalega risavaxna atburði sem eru ógurlegir og þannig að maður stígur til baka með vitneskjuna sér við hlið og reynir að vera bara köld á því, eins og margoft hefur komið fram er löngu komið úr tísku að kveljast og vola yfir örlögum annara, reynum að halda ró okkar svona einu sinni.

Þegar ég las, árið 2007, kaflann í Shock Doctrine um S-Afríku langaði mig að gefa frá mér hljóð, ekki kraftaverkahljóð, heldur skammar, svona skammarvæl. Ég skammaðist mín svo hræðilega fyrir að hafa verið svona fáfróð, ég vissi ekkert um S-Afríku, ekki neitt nema að Nelson Mandela var sleppt, gott gott, og að þar var vissulega hræðileg fátækt en guð minn góður hugsaði ég, fólk þarf tíma til að rétta úr sér eftir svona rosalega kúgun. Ég vissi að í S-Afríku var til mikið af –natural resources- en samt var þar mikil fátækt en fjandinn hafi það, þau þurfa smá tíma til að laga til hjá sér, ha?

Ég vissi ekkert.

Ég vissi td. ekki um AGS saminginn sem gerður var eftir endalok aðskilnaðarstefnunnar, að í honum stóð að ekki mætti taka til ráðstafana til að laga tekjuójöfnuð milli svartra og hvítra. Að WTO og GATT sögðu að ekki mætti gefa ókeypis AIDS lyf veiku fátæku fólki. Að the World Bank sagði að ekki mætti veita öllum aðgang að ókeypis vatni. Osfrv. allt að endalokum sögunnar.

The nationalisation of the mines, banks and monopoly industries is the policy of the ANC, and the change or modification of our views in this regard is inconceivable sagði herra Mandela en allir hinir; AGS, GATT, WTO, TWB sögðu Old man, you trippin, hefurðu ekki heyrt að sagan er búin, nú er það bara Washington Consensus og our way or the highway, viltu frið eða viltu vesen, svona lefty shit er bara fyrir þá sem vilja vesen, skiluru?

Nei, ég vissi ekki baun þegar ég las loksins árið 2007 um þetta, alla þessa ömurð, stundum er það svoleiðis. Mainstream medían er öflug, mjög öflug í að sýna bara sumt og aldrei annað, sýna bara sannleiksnefnd og gamlan göfugan mann og ég var fáfróð eins og vesalingur sem kíkir bara í Fréttablaðið eða Moggann, bjáni sem skilur ekki að það þarf að lesa og leita, taka tíma í að finna og fræðast og vita. Þvílík skömm sem fáfræðin er.

En guði sé lof fyrir að ég lærði, að ég hélt áfram heimakennslunni á sjálfri mér. Guði sé lof að ég gat svarað barninu í bíó með einhverju öðru en bulli og lygum frá kapítalistum og mainstreaminu þegar barnið spurði. Guði sé lof fyrir small blessings. Guði sé lof fyrir það að þegar ég les Hannes þá veit ég bæði afhverju ég fer að hlægja og líka afhverju ég fer að væla. Ég hlæ afþví maðurinn er eins og hann er og væli afþví að hann og vinir hans færðu hlekkina af hálsi hinnar svörtu alþýðu í S-Afríku og smelltu þeim um ökkla hennar. Fólkið sem hataði herra Mandela, ekkert endilega afþví hann var svartur heldur afþví hann var sósíalisti, vann í öllum stríðunum, vann og vann og heldur áfram að vinna stóra sigra fyrir peninga. Guði sé lof að ég veit allavega það, veit hvað og hvar hlekkirnir eru, hvert þeir voru settir af fólki sem heyrir bara kraftaverkahljóð úr skrjáfinu í peningum.

Einhverntíman áður en sagan endaði bjuggu vinir Sjálfstæðisflokksins í Bretlandi, vinir frelsis einstaklingsins, ungliðahreyfing Íhaldsflokksins, til voða fínt plakat með mynd af herra Mandela. Kannski fékk Valhöll eitt stykki sent í sérstökum frelsispósti þá, árið 198ogeitthvað. Kannski hangir það ennþá uppi á einhverri skrifstofu þar, á milli áritaðra mynda af Pínó gamla og Möggu kærustunni hans.

hang

—–

Þetta er fínt, og þetta. Og hér er Naomi Klein.

Og hér er Violetta að deyja, við grátum yfir því, yfir list um tilfinningu, það er betra en að gráta yfir raunveruleikanum, þar sem fólk deyr í alvöru úr fátækt og allsleysi. Yfir því er betra að góla og veifa kannski hnefanum sínum uppí loft, hátt hátt uppí loft, svo að almættið sjái og veiti manni styrk til að hætta að skæla og byrja að bylta.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s