þorsteinn, það er ég

Ég er bitur kona, því er ekki hægt að neita og oft voða reið. Í nútímanum þykja þetta miklir gallar á kvenmanni og gott ef ekki til marks um alvarlega þroskaskerðingu og geðfötlun, jafnvel sambærilegt við það að finnast g strengur kúgunartæki feðraveldisins.
En bíðið við: ég er líka oft mild og stundum mjög empatísk. Síðasta sumar td., var ég eitt sinn út á vappi og prófaði að hlusta á nýju plötuna með Daft Punk, vildi sjá hvort Get Lucky virkaði fyrir mig ef fuglar og gras væru með. Og viti menn, ég hugljómaðist allt í einu, allt í einu gat ég alveg sett mig í spor Bjarna BBB. Með golfvöllinn á hægri hönd fann ég allt í einu tengingu yfir í Garðabæinn, golfkúlurnar þutu í gegnum loftið, fólk í köflóttum buxum og vestum gekk um, og ég hugsaði hann Bjarni, hann er bara svona, svona líður honum, svona tight og björtum, eins og mér líður akkúrat núna, eins og sumarkvöldi í úthverfi þegar lífið er einbýlishús og pólóbolur, sponsað af Eimskip, ótrúlega fullkomið, ótrúlega fullkomið í vestrænum skilningi, ótrúlega fullkomið í sögulegu samhengi, aldrei neinn haft það eins gott, verið eins blessaður af Jeebus, með eins fallega rjóða vanga, með jafn gott úthald til íþróttaiðkunnar og í eins góðum nýjum strigaskóm, keyptum í Ameríku sjálfri og ég varð öll – þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu-!

Og eins og að þetta sé ekki nóg, eins og ég gæti ekki sagt, þarna náðu mildi mín og jesúhæfileikar hámarki, eins og ég hefi ekki getað hætt í empatíubransanum eftir þetta brjálæði sem Homo Erectus Empathicus ljóslifandi í Grafarvogi, hver gæti beðið um meira?

Ég veit ekki hver bað en það kom meira, ég bið ykkur um að staldra við á ný:

Í dag, félagar, horfði ég á ljósmynd af einu fancýasta auðvaldi Íslands, þessum myndarlega manni, að vísu án rjóðra vanga, en alltaf smart og alltaf útiteknum og ég las textann sem fylgdi myndinni og allt í einu, án nokkurrar viðvörunnar, kom tengingin: ég skil nákvæmlega hvernig Þorsteini Pálssyni líður. Nákvæmlega. Þó að hann sé ríkur og ég sé fátæk, hann sé karl og ég sé kona, hann borgarastétt og ég prólí, hann í jakka sem kostaði allavega 57.000 og ég í gamla jakkanum með kattahárunum, hann ekki skrítinn og ég skrítin, hann að skrifa texta sem ég skil aldrei neitt í og ég að skrifa texta sem hann mun aldrei lesa, hann hafi fengið að ráða fullt og ég aldrei neinu, hann fari í manicure og ég ekki, þá tengdist ég honum með tilfinningunum mínum, frá hans hjarta yfir í mitt flaug ör með taug áfastri og stakkst beint inní mig. Og stjarfklofinn rann um mig á ný, frá haus niður í tær:

Fyrir ekki svo löngu brast strengur inní mér, svo harkalega, smellurinn var svo hár og sársaukinn svo mikill að ég grenjaði útum allar trissur, ég sleit næstum öll liðböndin í íslenska vinstri parts heilanum mínum, djöfull var það sárt, ég mun aldrei gleyma því. Þegar vinstri skjaldborgin mikla gerði loftárásir á Líbíu. Ég hélt eitthvað eitt, var alveg viss, og svo kom í ljós að ég var fífl, einfeldningur sem hélt að orð væru einhvers virði, að afstaða til mála grundvallaðist á upplýsingu. Þetta var agaleg kennslustund í því að hætta að treysta en sennilega mjög mikilvægur partur í því að verða fullorðin fyrir fullt og allt, sem auðvitað enginn vill verða en fáir sleppa við. Þau sem settu mig í fullorðinspyntingavélina spurðu mig ekki hvort ég væri til í tuskið og ég fékk ekki að velja mér safeword svo ég gæti æpt þegar ég gat ekki meir. Ekki lætur guð okkur velja safeword þegar hann ákveður hvort við eigum að fæðast, enginn fær að gera það, ekki ég og ekki Þorsteinn.

þorsteinn

Þorsteinn, þegar ég var 13 henti ég snjóbolta í bílinn þinn einhverstaðar í Fossvoginum. Þá varst þú kannski frekar ungur og ekki búinn að læra lexíuna, heldur meira í því að kenna lexíur og sennilega viss um að þú værir aðalkennarinn og líkast til skólastjórinn líka.  Það hef ég aldrei haldið um sjálfa mig og ég myndi frekar deyja en að flytja aftur í Fossvoginn en ég skil samt nákvæmlega hvernig þér líður í dag, þegar þú horfir á rotnandi hræið af fulltrúalýðræðinu og ert við það að kasta upp. Það eina sem ég get sagt þér til hughreystingar er: þetta er hryllingur meðan á því stendur, eins og ljónið í kvæðinu að bryðja sálina okkar, en einnig þetta líður hjá og það sem drepur þig ekki gerir þig fyrst klikk, svo bitran og reiðan eins og konu og guð einn veit hvað gerist svo.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s