án titils

Þetta kvæði er tileinkað konunum í Sjálfstæðisflokknum. Það er frekar lélegt og ort á korteri, en það verður að hafa það. Mér bara leið allt í einu eins og ég yrði að semja litla vísu, sérstaklega fyrir þær. Eitthvað smá flipp, eins og ég væri í Framsókn.

Allavega, hér er lítil partýpulsa handa ykkur, konur í Sjálfstæðisflokknum, ég er enginn Ahab og þið allsekki Moby Dick, ekki einu sinni Hanna Birna, ég er ekki með þráhyggju, allsekki, ég bara lagði mig og þegar ég vaknaði gat ég ekki hugsað um neitt annað í smástund. Ekkert nema ykkur.

– – – – –
hanna og ragga

Heyrðu?

Mætti ég kannski fá að skreppa?

Heldurðu að ég mætti nokkuð fá að gera eitthvað annað?

Ég var að spá hvort ég mætti kannski fá smá pláss einhversstaðar annarsstaðar?

Bara eitthvað lítið, bara fyrir mig.

Þá getur þú verið í friði.

– – – – –

Í tíuþúsund ár höfum við legið hérna, undir þessum feldi

Þessu flísteppi

Eða á þessum sólstól, undir rauða teppinu

Í tíuþúsund ár en mikið voru þau fljót að líða

Mér líður eiginlega eins og allt hafi gerst í gær

Í mesta lagi fyrir 10 árum síðan, að allt hafi gerst í síðasta lagi þá

Í gær fyrir þúsund árum

Fyrir tíuþúsund árum

Hvað tíminn er fljótur að líða

Mig minnir að það hafi verið eitthvað í gangi þegar ég lagðist

Á sólstólinn, það var ótrúlega kósý

Ég ætlað að lesa en dottaði í staðinn

Í tíuþúsund ár

Og það dró ekki ský fyrir sólu

Svona getur lífið verið notalegt hugsaði ég og var ánægð með að hafa lagst

Ansi er þetta góð hugmynd

En ég verð að viðurkenna að stóllinn var þarna, tilbúinn

Alveg eins og þau sem lögðust á undan mér í þessi árþúsund,

Það var allt tilbúið fyrir þau, bæði teppið og feldurinn

Auðvitað legst maður þegar allt er svona kósý,

Við í það minnsta, auðvitað gerum við það

Við höfum nægan tíma, ein þúsöld einn lúr undir mjúku teppi

Það var eitthvað að gerast minnir mig

En því miður er ég ekki alveg viss hvað það var, maður getur ekki munað allt.

En auðvitað lagðist ég.

Hver gengi fram hjá sólstólnum án þess að leggjast

Enginn sem ég þekki

Enginn sem ég hef þekkt í tíuþúsund ár

 

Hvað var aftur að gerast þegar ég lagði mig?

Ekki að mér finnist neitt óþægilegt að muna það ekki

En samt

En ég er auðvitað nývöknuð

Eftir allar þessar þúsaldir

Var ekki einhver að reyna að leggja sig?

Minnir mig

Hann var með svefnpoka

Og vekjaraklukku

Ég man ekki alveg hvernig þetta var

En hann var með svefnpoka og vekjaraklukku

Alveg rétt

Mér fannst mjög óþægilegt að heyra í klukkunni

Þetta var lítil klukka en tikkið var frekar hátt

Svona miðað við

Sérstaklega miðað við að við höfum ekki verið að nota svona klukkur

Frekar ósmekklegt fannst mér

Minnir mig

Að taka með sér klukku

En ok, hann ætlaði náttúrlega að leggja sig í svefnpoka

Það er öðruvísi en að leggjast undir feld

Hlýtur að vera, annars veit ég ekkert um það

En það hlýtur bara að vera

Þú getur varla notað svefnpoka ef þú ætlar að leggja þig í árþúsund

Þá þarftu teppi eða feld

Og sólstól ef sólin skín

Sem hún gerði einmitt

Allavega, okkur öllum fannst

Við vorum sammála um það

Að finnast þetta tikk, að finnast það satt best að segja  óþægilegt

Þannig var það bara

En ég man ekki alveg hvernig þetta var

En ég man að hann var með svefnpoka og ætlaði að leggjast í hann

En einhver sagði, hann er of sver fyrir þennan poka, alltof sver

Sjáiði, hann kemst ekkert í þennan svefnpoka

Þetta er viðkvæmur poki, hann á aldrei eftir að þola svona

Það segir sig sjálft

Og í tíuþúsund ár?

Það er augljóst að þessi poki á ekki eftir að endast í tíuþúsund ár

Ef þú ætlar að leggja þig í þúsaldir, eins og við gerum hér

Höfum alltaf gert

Við höfum aldrei notað svefnpoka

Þetta gengur aldrei

En ég man ekki alveg hvað gerðist

Ég er auðvitað nývöknuð

Eftir langan tíma

Það er alltaf þannig eftir svona langan tíma

Mig minnir að þetta hafi verið svona

Það var maður með svefnpoka og klukku

Við vorum sammála um að það gengi ekki og hann fór

Tók þetta  óþolandi tikk með sér

Og allt of lítinn svefnpoka

Minnir mig

En ég var auðvitað ekki að fylgjast sérstaklega vel með

Var að leggja mig

Sólin skein

Ég ætlaði að lesa í smástund en dottaði eiginlega um leið og ég lagðist

Sólin skein, þetta var ótrúlega notalegt

Eins og alltaf

Í tíuþúsund ár

Eins og alltaf

Eins og það hafi gerst í gær

Við lögðumst útaf, með teppi

Eins og við höfum alltaf gert

Í tíuþúsund ár.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s