disney göbbels

Hér eru atriði sem veltast um í heilanum á mér sem er frekar leiðinlegur um þessar mundir. Svoleiðis getur gerst.

Nr. 1: Ég sá á internetunum frétt um mann sem lenti í tígrisdýrabúri og var étinn. Ég ákvað að lesa ekki fréttina afþví að mér finnst líklegt að heilinn í mér geti ekki gert neitt af viti með vitneskjuna og fari frekar í ruglið; að sýna mér myndir af atburðinum og láta lýsingar blikka orðrétt inní höfðinu á mér, td. þegar ég er lögst uppí rúm eða í sturtu. Þessvegna tók ég svokallaða upplýsta ákvörðun og leyfði orðunum ekki að komast inní mig.

Nr. 2: Ég sá á internetunum frétt um mann sem lenti í íslenskum löggum. Í þeirri viðureign, ef svo má að orði komast, gerðist ýmislegt; hann var plataður til að koma með á löggustöðina, honum var neitað um að fá að tala við lögfræðing, hann var laminn með kylfu og hann var skorinn í fæturna með hníf. Af löggu/m. Kannski dúkahníf, ég veit það ekki. Það blæddi mjög mikið og hann fór í sjúkrabíl uppá spítala þar sem skurðir voru saumaðir saman. Afþví að hann hafði verið skorinn í fæturna af löggu. Afþví hann hafði verið að týna dósir í bænum um kvöld en löggan átti við hann erindi, þennan svarta dósatýnara, þennan mann fæddan í Afríku, þennan öreiga, þennan útlending, svartan í íslensku haustkvöldi. Íslensk lögga með hníf þurfti að tala við hann, sýna honum bréf um það að hann ætti að fara annað að týna dósir, vera svartur annarsstaðar. Að hann ætti ekki að halda að hér væri annað í boði en annarsstaðar; hér er nákvæmlega allt eins og annarsstaðar, hér eru löggur og stundum með hníf.

Heilinn inní mér kreistist töluvert þegar ég las þetta. Leiðinlegi heilinn varð leiðinlegri. Ég sá þetta fyrir mér; hnífinn, fótinn, manninn, blóðið. Ofbeldi. Dálítið mikið ofbeldi sagði leiðinlegi heilinn og sýndi mér svipmyndir aftur. Þetta hefur ábyggilega verið dúkahnífur sagði heilinn, alveg pottþétt. Já, ætli það ekki.

Undanfarið hef ég oft móðgast á Facebook, þegar fólk hefur verið að deila, ef svo má að orði komast, fréttum, ef svo má að orði komast, um það hvað löggan á Íslandi sé nokkurskonar ekki-lögga. Meira eins og Bastían bæjarfógeti eða Viddi í Toy Story kannski. Á meðan löggur í útlöndum eru uppteknar við að skjóta unglinga td., oft afþví þeir eru svertingjar að þvælast úti í nóttinni, eru löggur hér að leika sér með blöðrur og við ketti. Um hábjartan dag. Samkvæmt hinum svokölluðu fréttum. Já, ég hef móðgast, eða réttara sagt leiðinlegi heilinn, hann hefur fussað og farið að rifja upp ýmis atvik, eins og þegar drukkna konan varð á vegi löggu sem varð svo mikið um fylleríð í sumarnóttinni að hún ærðist og kastaði konunni til og frá og svo uppí löggubílinn. Hafðu þetta, fulla sumarkona, ef ég hryggbrýt þig hættirðu kannski að vilja fara á fyllerí í bænum. Og þegar löggan fann handa mér lögfræðing, góðan strák, alvöru hvítliða, lítinn fasista, til að vera mér innan handar við yfirheyrsluna sem ég var nöppuð í. Og þegar ég sá löggu ganga uppað dreng, varla meira en fimmtán ára gömlum og sprauta piparúða, því sem næst varkárnislega, beint í augun á honum. Og þegar ég sá löggur bilast af bræði afþví að einn kall vildi ekki færa sig úr stað og annar maður fór að hlægja að því, bilast þannig að kallinn sem vildi ekki færa sig og hinn sem hló voru báðir snúnir niður og dregnir burt fyrir glæpina að standa og hlægja.

Æ Leiðinlegi heili, hættu að fussa, hef ég sagt, á meðan heilinn vill setja eitthvað tuð á Facebook, einhverja upphrópanir um íslenskar löggur og það hvernig þær eru svona og hinsegin, æ, til hvers í ósköpunum heili, hverjum er ekki skítsama? Ef þau vilja vera í þessum sleik við lögguna kemur okkur það ekkert við. Anskotans fífl ertu, hefur heilinn þá argað, sérðu ekki að þau eru fórnarlömb í massívu áróðursstríði, ótrúlega einföldu en sjúklega effektívu; á Íslandi búa allir á internetunum, þangað hefur löggan flutt svona part-time, býr þar í fallegu skógarrjóðri með kisum og pónýhestum. Svona eins og Mjallhvít, sem var einmitt leikin af íslenskri konu fyrir hann Walt Disney sem var einmitt fasisti í raunheimum. En þetta er bara plat! Arrg. Á löggan að komast upp með þetta? Eins og einhver Disney Göbbels? Hvað um þau sem hitta hana í raunheimum og eru að glíma við aðra hluti en ketti og blöðrur?

Já, sagði ég, djöfull er mér skítsama. Mér er fokking skítsama. Ef fólkið vill Disney Göbbels þá bara verði þeim að góðu.

En svo sá ég fréttina um Chaplas Menka og hnífalögguna. Og þá er mér ekkert skítsama. Ég byð leiðinlega heilann að fyrirgefa mér, fyrirgefðu að ég var með þöggunartilburði, fyrirgefðu að ég var ræfill og nennti ekki að hlusta, sérstaklega ekki á neitt um Göbbels. Leiðinlegi heili, haltu áfram að tala við mig um nazista, alveg eins mikið og þú vilt, ég lofa að hlusta alltaf.

Mig langar að gera eitthvað, langar td. að krefjast þess að hnífalöggan verði rekin. Já, við Leiðinlegi heilinn krefjumst þess. Og við krefjumst þess að áróðursstríðið verði háð á ný, það gengur auðvitað ekki að löggan geti lýst yfir fullnaðarsigri eins og ekkert sé. Við getum ekki tekið þátt í svona óþolandi rugli. Við ætlum að taka upplýsta ákvörðun, leyfum orðunum og myndunum að fara inní okkur og krefjast þar aðgerða. Við lofum að í þetta sinn munum við tuða og þusa, í það minnsta. Í það minnsta.

police_brutality

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s