23 ár, hræ tímans

Ég hefi tvisvar verið mögulega kannski næstum því dauð. Í fyrra skiptið var ég unglingur sem fór að detta í sundur. Saumarnir sem héldu mér saman fóru að rakna upp, ég losnaði öll í sundur. Þessu fylgdu agalegir verkir í heilanum, ég eyddi miklum tíma í að ímynda hversu frábært það væri ef ég gæti bara nuddað heilann í mér, að ég gæti stungið puttunum inní hausinn á mér og nuddað rækilega, þá myndi mér sennilega fara að líða betur. Því eins og allir vita er mjög notalegt að láta nudda sig, hefur eitthvað að gera með endorfín og svoleiðis. En því miður tókst mér ekki að finna út úr því hvernig ég gæti nuddað heilann og eitt kvöldið höfðu saumarnir sem héldu hausnum föstum við hálsinn raknað alveg upp og hausinn rúllaði af. Þá var farið með mig uppá spítala og ég geymd fyrst á gjörgæslu í tvo daga og svo í mánuð á betrunarhæli, svokölluðu, á meðan hausinn var saumaður aftur á. Á betrunarhælinu upplifði ég ýmislegt; þar voru td. góðar sturtur, maður gat setið á bekk í sturtuklefanum, sem var mjög gott fyrir mig, því ég var afskaplega þreytt á því að þurfa að standa upprétt. Svo fékk ég að sauma sjálf, ekki hausinn samt, heldur fallegt gyllt pils og silkipúða og sitthvað fleira. Áður hafði ég ekki verið mikið gefin fyrir saumaskap. Svo fékk ég að sitja í hring með öðru fólki og segja frá upplifunum. Eða réttara sagt, í hringnum lærði ég að segja ekki frá upplifunum, afþví mínar voru svo afskaplega ómerkilegar á meðan annarra voru það ekki; kynferðislegt ofbeldi, geðrof, fíkn og svo mætti lengi telja. Ég lærði að mannleg tilvera er þjáning og sorg, það að hausinn skyldi detta af var alls ekkert merkilegt, hvað þá óvenjulegt og ekki í frásögur færandi.

Að mánuði liðnum var talið að hausinn væri nokkuð vel festur á og ég var útskrifuð með gyllt pils og púða. Sem var bara mjög fínt, ég gekk frekar í pilsi en buxum og hafði alltaf verið hrifin af púðum.

– – – – – 

Árið umþb. eitthvað í kringum 2006 fór ég að fylgjast með íslensku internetunum, mig vantaði satt best að segja eitthvað að  hugsa um. Ég hafði tekið dvöl mína í Bandaríkjunum alvarlega; hlustað alvarlega á fréttir um innrásir, fréttir um pyntingar, fréttir um pólitískt ofstæki, fréttir um allskyns efnahagslega glæpi, fréttir um New Orleans og svarta fólkið þar sem mátti drukkna í friði sökum hins mikla frelsis sem það naut í svo ríkum mæli, og svo mætti lengi lengi telja. Tilveran var mjög alvarleg og ég tók hana alvarlega, enda ekkert grín að vera hvítingi í rasísku heimsveldi, ekkert grín að skilja loksins hvað forréttindi þýða.

En semsagt, 2006 var ég aðeins farin að slaka á kröfunum til sjálfrar mín um að vera alltaf með návæmar tölur látinna á hreinu  og tilbúin til að fylgjast með fréttum um annað en risasögulega atburði. Og þá beið mín Ísland á veraldarvefnum. Og þar hitti ég Gísla Frey. Hann var Frelsisvörnin. Hann var Doer, eins og fleiri um þær mundir. Hann var ýmislegt. Hann var harður ídeólóg. Sá harðasti, fyrir utan kannski Jón Val. Og hann var alltaf að tala um að Ernesto Che Guevara, minn góði vinur, væri fjöldamorðingi. Hann var ekki beint fyndinn, en maður flissaði samt, já maður flissaði, ekki í forundran, maður var lífsreyndur eftir að hafa hlustað á GWB, einnig þekktan sem frelsisvörnina, flytja ótal ræður og ekki mikil forundran eftir, eða jú samt, flissið var mjög blandað forundran. Furðublandin forundran.

Þegar ég sá svo Gísla í anddyri ráðuneytisins fyrir ári síðan, þar sem ég var ásamt nokkrum svokölluðum hræðum, þrátt fyrir forsíðufrétt hins svokallaða Fréttablaðs um að Tony Omos væri melludólgur, fylltist ég engri forundran. Ég ætlaði að kalla á hann: Jæja, ertu þá komin, sjálf Frelsisvörnin. En aðrar hræður þarna staddar höfðu merkilegri hluti að segja við Gísla, alvöru merkilega hluti um framkomu íslenskra stjórnvalda við öreiga á faraldsfæti, á örvæntingar flótta fæti, það var ekki við hæfi að vera með frammíköll og rifja upp brandara frá 2006 og 7. Og svo langaði mig allt í einu ekkert að kalla neitt á hann af því að hann tifaði einhvernveginn, hann lyfti sér stöðugt upp á tærnar, ekki faraldsfótinn heldur frelsistærnar og það var skrítið og ég hálf vorkenndi honum afþví að empatían er furðulegt fyrirbæri. Það alfurðulegasta. Að vera allt í einu farin að vorkenna sjálfri Frelsisvörninni, sem aldrei vorkenndi neinum; nema eina prósentinu, hinu frjálsa prósenti, glóbal prósentinu sem þarf aldrei nein vegabréf eða uppáskriftir um gott innræti og þátttökuleysi í glæpastarfsemi, þarf ekkert nema peningana sína og Frelsisvarnir allra landa, sem standa sameinaðar í að gefa þeim öll lönd.

Stundum vorkenni ég líka nazistum, ef þeir létu ungir glepjast af hugmyndafræðinni. Heilaþvottur er mega powerful, þessvegna er hann kallaður heilaþvottur. Stundum get ég vorkennt næstum öllu. Þessvegna kallaði ég ekkert á Gísla, ekkert diss, engan derring, vildi ekki grípa fram í fyrir þeim sem sögðu hluti af viti og afþví að ég á bágt með að vera með skæting við fólk sem tifar af stressi. Seinna er svo hægt að spyrja sig sjálft: Afhverju sagðirðu ekki eitthvað ljótt og afhverju ætli hann hafði tifað svona af stressi?

– – – – – 

Fyrir viku síðan sá ég ský á hvolfi. Himininn logaði og eitt stórt ský var á hvolfi. Það er auðvitað erfitt að átta sig á því hvort ský eru á hvolfi en ég vissi strax að svo var vegna þess að mér varð hræðilega óglatt við að horfa á það.

– – – – – 

Ekkert getur komið á óvart, árið er 2014 og allt sem getur gerst gerist.

Barnamorðingjar fá sérstök barnaverðlaun, kannski fyrir að hafa ekki drepið fleiri börn. En auðvitað er sannarlega hægt að vera þakklát fyrir það.

Kona sem ætla að taka að sér að hjálpa sérstaklega konum sem verða fyrir heimilsofbeldi klæðir sig í búning og ákveður að trúa ekki konu sem varð fyrir heimilsofbeldi og konur sem fyrst og fremst ætla að hugsa um konur í öllum samhengjunum, hinum stóru og smáu, ákveða að styðja konuna sem trúði ekki konunni sem varð fyrir ofbeldi. En það kemur ekkert á óvart.

Ekkert kemur á óvart, heimilið í landinu eru heimili þeirra sem alltaf mæta á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum, alveg sama hvað á hefur dunið á heimilinu, mæta alltaf á jólahlaðborðið, villibráðarhlaðborðið þar sem boðið er uppá eitthvað kjöt sem enginn getur eða vill nefna, medium rare, þeirra sem gubba í lófann við veisluborðið, standa ekki upp til að fara á klósettið og fá sér smá kalt vatn, heldur kyngja og brosa svo til sessunautanna og segja: Ég var ekkert að gubba útaf kjötinu. Og fá sér svo meira rauðvín og reyna, þegar líða tekur á kvöldið, að ná augnsambandi við Gauleiter Þór, nei afsakið, ég meina auðvitað Guðlaug Þór.

Ekkert kemur á óvart, það að tugþúsundir dukkna í hafinu, á leiðinni til Evrópu, kemur ekkert á óvart, þeirra bíður engin Frelsisstytta, engin eyja, hvorki Ellis né Ísland. Þau drukkna bara. Svart og brúnt fólk hefur verið að drukkna öldum saman á leið til vesturheims, því ætti það að koma á óvart?

Ekkert kemur á óvart og er það ekki bara ok? Vissulega saknar maður örlítið æsingsins sem fylgdi því að verða hissa á eina prósentinu og útsendurum þess, en æsingur er ekki góður þegar til langs tíma er litið. Og við erum svo sannarlega að líta til langs tíma, eða allavega svo langs tíma sem þóknast okkar merkilegu overlords sem nú stýra gangi himintunglanna og ráða því hvort skýin snúa upp eða niður, allavega eins langs tíma og þau vilja úthluta okkur svokölluðum hræðum.

Hausinn dettur af, það er ekkert mekilegt við það, alltaf að gerast. Nú eigum við Gísli það sameiginlegt að hafa séð hausinn rúlla út á gólf. Minn var festur á og það verður hans líka.

Ekkert kemur á óvart.

Nema það að sólin kemur upp og sest svo. Og að almættið skapaði himinn og jörð á eins löngum tíma og því þótti sjálfu þurfa. Og að öll vötn renna til sjávar. Og að fuglarnir í stóru trjánum í garðinum heima hjá mér syngja. Og að kettirnir eru mjúkir. Og að Ameríka er þarna ennþá, án mín. Og að ég elska hana og sakna hennar á næstum hverjum degi.

Og að eftir 23 ár mun eitt prósentið eiga allan auð veraldar. Allan auð veraldar. Það kemur satt best að segja örlítið á óvart. Hversu stutt við eigum eftir. Hversu rifan á glugganum er örlítil. Brátt mun hún lokast alveg. Ég hélt að við hefðum aðeins lengri tíma.

En við höfum engan tíma. Það kemur á endanum ekkert á óvart.

– – – – –

Ég sá fyrir mér að ég myndi dansa við lítinn bálköst þegar hér væri komið sögu. Að Gísli sæti inní sumarbústaðnum sem hann dreymdi um, að hlusta á U2, sem var uppáhaldshljómsveit Frelsisvarnarinnar og að ég dansaði fyrir utan, heit af litla bálinu mínu. En ég er ekkert að dansa. Ég er gömul. Ekkert kemur mér lengur á óvart, ég dansa sjaldan.

– – – –

Þetta er tileinkað Che Guevara, sem Frelsisvörnin, í sínu mikla húbris, var alltaf að kalla fjöldamorðingja. Og ef ég þyrði, almættisins vegna, siðprýðinnar vegna, væri þetta kannski líka tileinkað þeim sem reyna að komast yfir hafið en mæta Frelsisvörnum allrar landa, sameinuðum og komast ekkert, nema í mannkynssöguna sem sönnun á einhverju sem aldrei átti að sanna.

I don’t know why we had to lose
The ones who took so little space
They’re still waiting for the east
To cover what we can’t erase

Og þetta; þetta hefði ég kannski hlustað á fyrir utan sumarbústaðinn, heit af bálinu. Þetta er tileinkað rúllandi unglingshausnum mínum. Honum hefði þótt þetta mjög smart. En það er auðvitað frekar augljóst og kemur ekki á óvart.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s