ávarp flutt 1. maí, á fundi IWW

1 versus restin

Félagar!

Það er til ógeðslega mikið af ógeðslega ríku fólki. Þau búa á ógeðslega mörgum stöðum útum alla veröld, það er allt morandi í þeim hvert sem við förum en þau eru ábyggilega ekki hér.
Ég ætla samt að ávarpa þau:

Hei þið ríku: Ekkert ykkar varð ríkt afþví að þið eruð svo dugleg og klár. Ekkert ykkar varð ríkt afþví að þið eruð búin að læra svo mikið í allskonar skólum, ríkidæmi ykkar sannar ekki að þið séuð merkilegri en annað fólk. Þvert á móti:

Þið eruð rík afþví ykkur finnst í lagi að arðræna. Afþví ykkur finnst alveg í fínasta lagi að stela, ekki bara auðnum sem fólk býr til handa ykkur, heldur öllum tíma fólks, andlegu og líkamlegu heilbrigði, fortíð og framtíð,
allir bónusarnir, allur arðurinn, allar þessar milljónir hér og milljarðar þar, eru ógreidd laun til vinnandi fólks, réttmæt eign hinna vinnandi stétta,
undirstaða lífs ykkar er arðránið,
líf ykkar er arðránið sjálft, sem er undirstaða kapítalismans, sem er ógæfa heimsins.

Félagar!

Það er til ógeðslega mikið af fátæku fólki.
Það er til ógeðslega miklu meira af ógeðslega fátæku fólki en ríku fólki. Það er til svo ógeðslega mikið af fátæku fólki að tilvera þess er offramboð og markaðsvirði lífs þess ekkert.
Markaðsvirði ekkert:
Það er allt í lagi að láta það drukkna, brenna, kafna, drepast á fjölbreyttan og margvíslegan hátt án þess að það komi nokkrum sérstaklega við. Það er hægt að láta það vinna inní ónýtum húsum við að sauma ónýt föt, það er hægt að láta 146 manneskjur brenna í New York árið 1911 við að sauma drasl í ónýtu húsi og það er hægt að láta 117 manneskjur brenna í Bangladesh árið 2012 við að sauma í ónýtu húsi.

Þetta kemur engum við vegna þess að það er alltaf hægt að ná sér í fleira fólk, uppsprettan er að því virðist ótæmandi, framboð meira en eftirspurn, þetta er svosem ekkert flókið, you’re worth what you’re worth sagði einn amerískur kapítalisti fyrir ekki svo löngu og rökstuddi með þeim orðum þá skoðun sína að það væri ekkert að því að borga vesalingum kannski bara einn dollar á tímann fyrir vinnuna sem þeir inntu af hendi.

Meðfætt, áskapað, eðlislægt virði manneskju, man einhver eftir því?

Það er til svo mikið af fátæku fólki, svei mér þá, ég held það sé til meira af því en peningum.
En þau eru ólíkt peningunum, einskis virði. Þegar þau td. hrúgast saman í báta til að reyna að sanna að þau, já, einnig þau, séu mennsk, og það sé þeim meira að segja meðfætt, dettur lausnamiðuðum einstaklingum helst í hug að sprengja bátana, til að sanna að nei, þið, fátæka fólk, eruð ekki mennsk, svoleiðis. Og það er ekki hægt að taka við þessu svokallaða fólki vegna þess að mitt í hinu stórfenglega verkefni nýfrjálshyggjunnar; að skrúfa að endingu alveg fyrir velferðarkranann, eru ríki ekki aflögu fær um smotteríis aur til að aðstoða aðframkomna aðkomumenn,
í hinu stórfenglega verkefni nýfrjálshyggjunnar Endurskipulaggning rikisfjármála eru ríki ekki aflögufær um smá aur vegna þess að því sem áður rann um pípulagnir verkefnisins Samfélag hefur nú verið beint í aðra átt og rennur glatt um pípulagnir verkefnisin Engir skattar, afnám skatta er forgangsmál, fyrir stórfyrirtæki og eitt prósentið. Enda eru þau sannarlega eins mikils virði og þau augljóslega eru, og í raun miklu miklu meira, ef við öll fáumst bara til að viðurkenna meðfætt, áskapað, eðlislægt virði þeirra.
Corporations are people my friend. People, not so much.

Félagar:

Í vetur bárust fréttir af því að eitt prósent mannkyns ætti helming allra auðæfa veraldarinnar. Og að eftir 23 ár yrði það búið að eignast allt, allan auð heimsins.

Ég er búin að hugsa um þetta, þessi 23 ár, alveg non-stop eiginlega. Þetta er svo fáránlegt. Eiginlega hlægilegt. Ég verð eins og fífl, skil ekki neitt, flissa bara.
23 ár. Hvað eigum við eiginlega að gera á 23 árum?

Við sem erum föst í einu því al-ógeðslegasta kerfi sem skráð hefur verið í  mannkynssöguna, sadísku kerfi, byggðu á rasisma, kvenhatri, þjófnaði, algjörri og endanlegri eyðileggingu,
Hér á Íslandi, hvað eigum við að gera,
á Íslandi þar sem þrjúhundruð og eitthvað þúsund búa saman á einni grjóthrúgu með einni lítilli borg með einni lítilli aðalgötu og ekki einu sinni einu góðu torgi en með æðislega ofsafenginni arðránsstétt,
arðránsstétt sem galar og frussar og lýgur: Vinnan gerir ykkur frjáls, vinniði, aumingjar, vinniði, kvíðna og stressaða fólk, ekki hætta, þið skuldið okkur allt, við ykkur ekkert, þið skuldið okkur fimm milljón króna hækkunina sem við vorum að enda við að greiða okkur sjálfum, sem er helmingi meira en þið fáið á einu ári, sem er hversu mikið minna en 23 milljónirnar sem við fáum á ári, bónusar og arðgreiðslur ekki meðtalin?
Hversu mikið er ótrúlega lítið?
Ótrúlega lítið, jafn lítið og 23.
Jafn ótrúlega lítið og 300.000,
sem gerir okkur ekki frjáls.
Félagar:

Þau sem á undan okkur komu, anarkistar og sósíalistar, börðust, lögðu líf sitt að veði, til að minnka og hemja arðránsmekkanismann.
Nú berjumst við víst fyrir því að fá 300.000 útborgaðar á mánuði, baráttan er svo sannarlega endalaus.
En undarlega íhaldssöm, finnst ykkur ekki? 300.000, þetta er hógvær krafa.
En þetta er þó krafa. Krafa er betri en kröfuleysi.
Félagar:
Ég ritstel frá sjálfri mér, ég ritstel frá hinum og þessum, allt sem ég segi hefur verið sagt óteljandi sinnum, af óteljandi manneskjum í næstum tvöhundruð ár. Baráttan er endalaus og þessvegna erum við alltaf að segja sama hlutinn; niður með auðvaldið, burt með arðránið, upp með fólkið, niður með svínin.
Baráttan er endalaus. Vegna þess að svo lengi sem kapítalisminn umvefur okkur með ömurleika sínum, verðum við arðrænd og hagnaðurinn sem fæst af því að stela frá okkur notaður til að auðga kapítalistana.

Það er til mikið af ógeðslega ríku fólki og ógeðslega mikið af ógeðslega fátæku fólki,
ótrúlega mikið af fólki sem á ekkert nema sig sjálft og hógværar kröfur um smotterí,
sem þau sem eiga allt heyra ekki,
ekki fyrr en þeim er sýnt að á bak við hógværar kröfur er ekki hógvært fólk, heldur mjög reitt fólk, vinnan hefur ekki gert þau frjáls heldur hlekkjað rækilega föst, og nú eru hlekkirnir farnir að vera óbærilega íþyngjandi eins og hlekkir hafa tilhneigingu til að verða.
Baráttan er endalaus, þau halda að henni verði lokið innan 23 ára, að þá verði þetta allt komið, verkefnið þeirra er á svo glæsilegri siglingu, en þau hafa rangt fyrir sér.
Því krafan hefur verið sett fram, hún er vissulega hógvær en hún verður það ekki lengi,

vegna þess að jafnvel þessari hógværu kröfu um 300.000 króna lágmarkslaun er hafnað. Og þá hljótum við öll að sjá að hógværð er tilgangslaus, þegar átt er í baráttu við fólk sem skilur bara græðgi,
þá hljótum við öll að hafna hógværð,
og þegar henni hefur verið hafnað, að endingu, þegar við sjáum enga hógværð þegar við lítum í spegilinn,
þá skulum við hittast, hvað ég hlakka til að hitta ykkur full metnaðar og brjálsemi,
og við segjum hvort við annað: Sjáiði ekki veisluna, hún er æðisgengin, þetta er veislan okkar.

Að lokum, orðsending til auðvaldsins, það  má eiga þessa orðsendingu alveg eitt, eins og risavaxinn bónus, ógnarstóra arðgreiðslu, hún hefur safnað vöxtum í 167 ár:

Í stað þessa munum við leyfa ykkur að stjórna um skeið. Segið fyrir um lög, vermið ykkur í geislum þeirrar háu tignar, sem þið hafið sjálfir skapað; bjóðið til veislufagnaðar í salarkynnum konunga og kvænist fögrum prinsessum – en gleymið ekki:
„Böðulinn stendur við dyrnar“.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s