ertu rotta, manneskjan þín?

Það er nýbúið að gera rannsókn um rottur. Þær máttu velja á milli þess að borða súkkulaði, sem þeim finnst víst gott eða að bjarga annarri rottu frá drukknun. Þær völdu að bjarga rottu frá drukknun.

– – – – –

Þegar ég var geðveik og langt leidd af sjálfsveltistilrauninni, hugsaði ég stundum, undir það síðasta, áður en ég gekk fram af sjálfri mér og ákvað í kjölfarið að reyna að hætta í ruglinu, að fólkið í útrýmingarbúðunum hefði nú verið mjög mjótt og samt ekkert endilega dáið. Það hefði aðallega dáið afþví það var drepið en ekki afþví það var svo mjótt. Þannig að allar líkur væru á því að ég gæti lifað mjög mjó og ekki dáið, nema þá ef einhver tæki uppá því að drepa mig, kannski afþví ég var orðin svo leiðinleg. Ég var svo leiðinleg að uppáhalds hluturinn minn, af öllu sem ég átti, var handryksuga, meira en uppáhalds, þetta var þráhyggjukennd ást, litla ryksugan seiddi mig til sín með frekar lágværu en fallegu sírenusuði, nokkurskonar forngrísku suði, fullu af loforðum um ótrúlega getu til þess að soga, ég horfði á hana í hleðslunni og ljósið var grænt og ég bara varð að nota hana. Það var alltaf hægt að finna mylsnu til ryksuga í oggulitla húsinu sem ég átti heima í. Það er hægt að eyða miklum tíma í að finna mylsnu, líka í mjög litlum húsum.

Stuttu seinna, í öðru húsi, las ég, minna geðveik, ævisögu Primo Levi. Á blaðsíðu 498, þann 11. apríl, hoppaði hann niður stigaganginn í húsinu sínu og dó. Ég fékk taugaáfall. Í fyrsta lagi hafði ég ekki vitað að hann ætlaði að fremja sjálfsmorð. Í öðru lagi varð ég ægilega áhyggjufull: ef Primo Levi ákvað að fremja sjálfsmorð orðinn 67 ára eða eitthvað álíka, mjög gamall, myndi ég þá aldrei getað slakað á? Yrði ég þá alltaf í lífshættu, orðin gömul en ekkert afslöppuð?

Var það satt sem Winona Ryder sagði: Ef þú ert á annað borð búin að hugsa einu sinni um sjálfsmorð þá hættirðu því aldrei?

Ég grenjaði í viku, útaf Primo Levi, afhverju gerði hann þetta, en samt aðallega af sjálfsvorkun. Ég hafði vissulega ekki verið send í útrýmingarbúðir en ég átti samt mjög oft mjög bágt.

– – – – –

Ég biðst afsökunar á bullinu. Ég get bara ekkert að þessu gert, einu skiptin sem ég bulla ekki er rétt á meðan ég les. Annars bulla ég bara, þess vegna er ég.

– – – – –

Áður en ég las ævisögu Primo Levi hafði ég lesið bókina Ef þetta er manneskja, eftir hann, um dvölina í Auschwitz. Á ensku heitir bókin Survival in Auschwits, en hún heitir það ekki í alvöru, í alvöru heitir hún Ef þetta er manneskja. Sem er mjög flott nafn á bók, finnst mér. Ef þetta er manneskja.
Maðurinn minn var að kenna námskeið um helförina og kom heim með þessa bók og ég las hana, suð ryksugunnar hljómaði nú oftar og oftar ámátlegt og virkaði ekki lengur sem fylgilagstælingar lag, heilinn hafði vaxið örlítið aftur, Guði sé lof fyrir það og ég gat aftur byrjað með bók.

Ef þetta er manneskja. Flott nafn, augun fyllast eiginlega strax af tárum.

Ég hafði alveg lesið um helförina áður og líka starað lömuð á myndir af fólki með risastór augu og fundist eins og risastór hönd, hin ægilega hönd hins óbærilega tilgansleysis mannlegra örlaga þrýsti með krepptum hnefa fast, fast á bringuna á mér, svo ég náði varla andanum,
en núna var ég orðin fullorðin í alvöru, og þetta var allt í alvöru, þetta var öðruvísi, og ég var líka búin að prófa að þjást, vissulega bara smá í hinum sögulega og mannlega samanburði og skilningi, en ég var td. búin að prófa að verða svo agnarsmá að ég varð næstum ekkert, á meðan höfðu augun stækkað í einhverju andstyggilegu hlutfalli við smækkun alls hins, orðið nógu stór til að stara endalaust í spegil, eins og spegilinn væri kannski svarthol, eins og fólk gerir kannski þegar spegilmynd þeirra birtist ekki lengur í speglinum, heldur eitthvað ókunnugt andlit, stórkostlega furðulegt og heillandi í viðbjóðslegum ókunnugleika sínum.
Ég las þessa bók hratt, eldsnöggt og sat svo og starði, hægt, áður en ég byrjaði að lesa ævisöguna, hratt.

Afsakið bullið.
Afhverju er ég að þessi bulli?
Afhverju segi ég ekki bara það sem mig langar til að segja?

Hugsiði ekki oft um helförina. Stelist þið ekki stundum til að lesa ljóð eftir Charlotte Delbo eða Paul Celan. Langar ykkur ekki oft að drekka svarta árdegismjólk.
Ég er oft að sötra.

Ég las ævisöguna þangað til Primo dó, það er langt síðan en ég fer ennþá að stara þegar ég hugsa um Primo að steypa sér fram af, burt frá mannlegri tilveru, útí tómið.

lest, manneskjur

– – – – –

Undanfarið er ég búin að hugsa um helförina. Ég horfði td. á mynd sem heitir The Decent One, um Heinrich Himmler. Það eru ástarbréf í henni, þau eru send fram og til baka, elsku ástarkrílið mitt, ég hef ekki tíma til að kyssa þig núna, hef ekki tíma til að veltast um með þér, hef svo mikið að gera, þetta er ekkert diskótek; hér eru lestir og þær eru á leiðinni dáldið.

Undanfarið er ég búin að hugsa þetta:
Við ætlum að sprengja bátana sem fólkið fer í til að reyna að komast til okkar. Það eru til manneskjur sem vilja komast til okkar, dvelja með okkur í veröldinni og við ætlum að sprengja bátana sem þær ætlar að sigla í, við eigum ekkert í þessum bátum en við ætlum samt að sprengja þá. Ef þú átt bara hamar, sérðu bara nagla og Evrópa sem hefur átt margt svo lengi hefur breytt því öllu í hamar og Evrópa sem hefur kunnað mikið svo lengi kann nú ekkert nema að negla. Evrópa, þú ert Rómverji með hamar, í allri þinni upplýstu sekúlar hefð sérðu ekkert lengur nema sjálfa þig, þú ert með bjálka í auganu og sérð ekki að veröldin öll er skilgetið afkvæmi almættisins. Evrópa, þú ert með svarthol í auganu.

Undanfarið er mig búið að dreyma þetta:
Mig dreymir að ég leiði tvær manneskjur, önnur er barn, við viljum komast eitthvað, ég er hrædd, komum, komum, segi ég, og allt í einu leiði ég bara barnið, hin höndin, sú fullorðna, leiðir mig ekki lengur heldur hefur gripið fast, mjög fast um höndina á mér, ég reyni að losna en þessi hönd heldur svo hræðilega fast í mig og ég lít á höndina og höndin er risastór, þetta er tilgangsleysishöndin, sterkust allra handa, og nú eru þær tvær, ein heldur mér og hin heldur á handryksugu, og ég sé að við barnið, við erum mylsna, við erum bara mylsna mannkynssögunnar.

manneskjur, strönd

– – – – –

Ég ætla að hætta að vera Evrópubúi, ég ætla að hætta að vera Íslendingur, ég er ekki lengur manneskja, ég ætla að vera rotta. Það er betra. Guð, gerðu mig að rottu.

– – – – –

We collected in a group in front of their door, and we experienced within ourselves a grief that was new for us, the ancient grief of the people that has no land, the grief without hope of the exodus which is renewed in every century.

Dawn came on us like a betrayer; it seemed as though the new sun rose as an ally of our enemies to assist in our destruction. The different emotions that overcame us, of resignation, of futile rebellion, of religious abandon, of fear, of despair, now joined together after a sleepless night in a collective, uncontrolled panic. The time for meditation, the time for decision was over, and all reason dissolved into a tumult, across which flashed the happy memories of our homes, still so near in time and space, as painful as the thrusts of a sword.
Many things were then said and done among us; but of these it is better that there remain no memory.

Primo Levi, Survival in Auschwitz (Ef þetta er maður), bls. 16.

Fúga dauðans eftir Paul Celan, í þýðingu Antons Helga Jónssonar.

Svarta árdegismjólk við teygum á kvöldin
við teygum hana seint og snemma og við teygum hana um nætur
við teygum og teygum
við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
hann ritar og gengur úr húsi og stjörnurnar leiftra hann flautar hundana til sín
hann flautar fram júðana sína lætur þá taka sér gröf í jörðu
hann skipar okkur spiliði fyrir dansi

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum

Hann hrópar grafiði dýpra þið þarna spilið og syngið
hann grípur til járnsins í beltinu hamast með augun sín bláu
stingið skóflunum dýpra þið þarna spiliði fyrir dansi

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít hann leikur við nöðrur

Hann hrópar spiliði dauðann af blíðu dauðinn er meistari þýskur
hann hrópar snertið dekkri strengi þá stígiði sem reykur til himins
þá öðlist þið gröf í skýjum svo þrengi ekki að neinum

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig á kvöldin dauðinn er meistari þýskur
við teygum þig seint og snemma og við teygum og teygum
dauðinn er meistari þýskur með augað sitt bláa
hann hæfir þig með blýkúlu sinni hann hæfir þig beint
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
hann sigar á okkur hundum býr okkur gröf á himnum
hann leikur við nöðrur og dreymir dauðinn er meistari þýskur

glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s