engin vopn á hafsbotni, í flæðarmálinu

Ég á yfirleitt ekki sérstaklega erfitt með að vera ósammála. Ég hef verið ósammála mörgum frá því ég var lítil, þannig að ég er búin að æfa mig vel, lengi.

En stundum veldur það mér hræðilegum þjáningum, að vera ósammála, vissulega bara tímabundnum, en þjáningum engu að síður. Uppnám, tár, sviti, agalegar svívirðingar og fordæmingar, bænir til hinna myrku máttarvalda sem ég óttast alla jafna mjög og reyni að hugsa sem minnst um og til, bænir um að fólkið sem ég er ósammála verði látið finna til hins sjóðandi heita tevatns, ljótar bænir til ljótra guða um ljótar refsingar.

Eftir morðin í París, þegar upplýstir mannréttindafrömuðir hófu að lýsa því yfir að þeir væru Charlie og fóru að merkja sig á alnetinu með viðurstyggilegu rasísku krafsi, missti ég tökin í tvo daga og það að vera ósammála varð ekki bara skoðun inní hausnum heldur áköf heildræn líkamleg nálgun og upplifun, sveittir órar um confrontasjónir og ekkafullir göngutúrar í Elliðárdalnum.

Þegar vinstri stjórnin gerði loftárásir á Líbíu og talaði um R2P og genocide, gekk ég af göflunum, argaði og gólaði, og var svo bara úti eins mikið og ég gat, niðri við sjó, þar var dimmt og guð einhverstaðar á sveimi og mögulegt að hann miskunaði sig yfir mig í minni miklu eymd og vesöld, sæi mig og aðstoðaði í þessum hríðum sem yfir mig gengu, þessari æðisgengnu jóðsótt sem þurfti til að fæða cynical og algjört vantraust mitt á íslenskri vinstri pólitík.
Hafiði grátið í Grafarvogi, í myrkrinu, að hlusta á Radiohead, útaf þingflokki Vinstri Grænna? Það er fremur sérstök upplifun sem ég mæli ekkert endilega með.

Þegar Agnes biskup baðst fyrir með Franklin Graham, níðingi og barnahatara, hefði það endað illa ef við hefðum fyrir tilviljun hist í Bónus í kjölfarið. Ég hefði mögulega kallað á hana Aumingi; af ávöxtunum skulið þér þekkja þá, og kannski eitthvað ljótara. Kannski elt hana eitthvað um á bílastæðinu.

Þegar fólk, líkt og Kjartan Magnússon, útvalinn fínn maður og Sjálfstæðis, og hún þarna Sveinbjörg, idjót útvalið af auðvaldinu, tala um að ekki eigi að hvetja vesalinga til að leggja í langferðir með því að bjarga öðrum vesalingum ef þeir detta í sjóinn, (eins og það að bjarga manneskju frá dauða sé hvatning til einhvers verknaðar annars en að lifa, og erum við þá ekki hætt að vera manneskjur ef við teljum slíkt eftir okkur?)
þegar þau benda á þjáningar samborgara okkar og segja að þar séu innihaldsríkar þjáningar sem vert sé að gefa gaum (eins og þau séu útvaldir spámenn og viti hvaða þjáningar eigi að lina og hverjar að leiða hjá sér),
þegar þau verða eins og Patrick Bateman, eins og kjötfars, eins og drullupollur, eins og kjallarinn í the Road eftir Cormac, í mennsku formi, þá bilar eitthvað inní mér og ég fyllist þessari brennandi þörf til að æða í hringi og stynja. Mér verður svo illt, í rifbeinunum sem heita Líbía og móðurlífinu sem heitir Írak og augunum sem heita Það að vera manneskja.
Þegar sonur minn sýndi mér tilvitnunina í Kjartan Magnússon sem sagði í Ráðhúsi Reykjavíkur:
Í hvert skipti sem einhverjum er bjargað sem fer yfir Miðjarðarhafið þá hvetjum við aðra til að fara þessa leið,
þá sagði ég Ha? Hvað sagði hann? Og svo aftur ha og svo aftur. Afþví að heilinn minn gat fyrst ekki púslað orðunum saman þannig að hann gæti botnað í þeim. Svo fór ég að flissa og svo að svitna og væla.

En á ég að segja ykkur soldið, þó að ykkur finnist ég þá ógeðsleg? Þegar framvarðasveit Samfylkingarinnar vill bjarga miklu fleiri en 50 manneskjum  og verður öll göfug þá missi ég líka tökin og þarf að stimma. Afþví Samfylkingin er svokallaður Nató flokkur. Sem þýðir að hún alltaf til í svokallaða vestræna samvinnu sem felst í því að við og spegilmyndir okkar henda sprengjum í –the others-, eða í það allra minnsta senda vopn og peninga til að kynda hrikaleg ófriðarbál. Sem heitir hjá okkur og spegilmyndunum–Að Gera Eitthvað-. Og hver vill vera sú sem horfir í spegil og sér einhverja sem gerir ekki neitt? Mætir ekki í ræktina, ekki í partýið, ekki á opnunina, ekki á foreldrafundinn? Engin. Nútíminn er þannig að við verðum Að Gera Eitthvað. Og stundum er fólgið í því að gera innrás í Afganistan eins og Össur, stundum felst í því að kasta sprengjum í fólk í Líbíu með Jens Stoltenberg eins og Jóhanna, og stundum að vilja bjarga miklu fleiri en 50/opna hjartað.

Opna hjartað sem hefur fram að því verið lokað fyrir –collateral damage-
lokað fyrir martröðinni sem imperíalisminn fæðir
lokað fyrir Líbíu
lokað fyrir Afganistan
lokað fyrir eigin sekt
lokað fyrir eigin hræsni.

nató flýgur
Þannig að já, þegar fólk sem nælt hefur sér í sæti ofarlega í píramídanum, án þess að þurfa að lifa eftir þeim gildum sem það segist aðhyllast, án þess að hafa tekið nokkra ábyrgð á fjöldagröfunum sem það hefur tekið þátt í að búa til, þegar það opnar hjarta sitt fyrir fleiri en 50 (hversu mörgum á að bæta við, hvenær lokast hjartað?) þá verður mér ofboðslega kalt á tánum og höndunum, afþví að allt blóðið inní mér myndar flóðbylgju sem skellur svo á heilanum og ég verð, í stutta stund, hamfarasvæði.
– – – –
Á ég að segja ykkur?

Sumir eiga sér fjöll og dal og einhvern sand
og bjarmaband
og tré á sléttu eða í hlíð
og eitthvað hátt og eitthvað blátt
og einhver ystu mörk
og byggð og grimmd og styggð
og ráð og dáð og draum og ást
og fólk, til að vera háð,
og draum um strönd
og dag á ný
og ekkert stríð
og eitthvað haf
og lítinn bát og lítið barn
og djúpan sjó og flæðarmál.

– – – – –

Öll börn heita eitthvað

Vopn frá Vesturlöndum lenda ekki í sjónum

Mér fannst þetta fallegt þegar ég var lítil. Nú bara þoli ég þetta ekki.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s