ekkert trickle down sull

a womans place

Ávarp flutt í dag, 8. mars.

Hæ kæru félagar, takk fyrir að bjóða mér.

Ég reyndi í nótt að skrifa eitthvað grín intró, alltaf gott að grína áður en maður fer að þusa, en mér datt ekkert fyndið í hug. Ekki neitt. Ég sat bara uppi með það í morgunsárið að hafa sagst ætla að flytja erindið Konur í stéttastríði sem er ótrúlega ófyndinn og alvarlegur titill. Þannig að um sexleitið í morgun ákvað ég að breyta titlinum í Femínistar í stéttastríði. Afþví að sumun finnst allt með femínistum mjög fyndið! Breytingin fær vonandi einhvern til að hlægja allavega smá.
Ég biðst forláts á þvi að breyta og flýti mér að byrja að þusa.

Tvær nýlegar fréttir:

28. janúar síðastliðinn, um svipað leiti og hún fékk bónusinn, hreppti Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka verðlaun Kvenna í atvinnulífinu.  Í rökstuðningi dómnefndar var ma. nefnd sú alþekkta íslenska staðreynd að Birna er mikil og góð fyrirmynd fyrir ungt fólk af báðum kynjum. Verðlaunahafinn hvatti svo í þakkaræðu sinni Ragnheiði Elínu kvenráðherra eins og hún er kölluð, til dáða í jafnréttismálunum; hún mætti aldrei slá af kynjakvótanum í stjórnum fyrirtækja, stórra sem smárrra.

Um það bil mánuði seinna, í byrjun mars, bárust fréttir af því að Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan og Katrín Pétursdóttur, forstjóri Lýsis hefðu gerst vekfallsbrjótar með því að ganga í löndunarstörf í Straumsvík.  Þegar þær uppskáru reiði fyrir brotin benti Katrín, sjálf mjög reið, á að þær Rannveig  væru konur, þessvegna væri fólk svona reitt og gaf þannig til kynna að karlverkfallsbrjótar ættu náðugri daga þegar kæmi að skítlegri hegðun. (Þess má geta sem funfact/skítkasti að Rannveig er með sex komma þrjár milljónir á mánuði og Katrín með ríflega tvær.)

Guð hvað við þurfum nýja kvennahreyfingu á Íslandi, þusaði ég inní mér þegar ég las þessar fréttir,
ég get ekki meira af þessari ídentití vitleysu. Þessi fráleita krafa um samstöðu með verkefninu Sumar konur mjög ríkar að ráða er svo heimskuleg að það hlýtur að vera nóg komið.
______

Nýfrjálshyggjan er viðbjóðslegt fyrirbæri, hvernig sem á hana er litið, en eitt af því andstyggilegasta er tilhneyingin til að eigna sér hvað sem er til að tryggja hegemónísk yfirráð, þar með talda kvenréttindabaráttuna. Nýfrjálshyggjan gleypti frelsunarbaráttu kvenna og skilaði engu til baka nema forheimskandi narratívum um persónulega velgengni  innan kapítalismans.

Fókusinn á slíka velgengni og aðgang að valdi til handa sumun konum hefur gert að engu útópíska kröfu femínismans um  samfélagslega og efnahagslega breytingu, grundvallarbreytingu;  sósíalíska kröfuna um samfélag raunverulegs jöfnuðar.

Femínismi brauðmolakenningarinnar er ömurlegur. Hann er kúgunartæki. Hann krefst tryggðar af hinum arðrændu gangvart þeim sem arðræna með því að benda á kynfæri, hann er viljandi heimskur því hann vill heimskar konur. Píkan verður eins og þjóðríkið, píkupólitíkin gróf og óforskömmuð, líkt og þjóðernishyggjan;  verkefni hinna siðlausu og svo tilvistarlegur tilgangur þeirra einföldu og fávísu.

Krafan um frjálsan markað, með aðeins tæknilegum fegrunaraðgerðum, eins og kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, er siðlaus krafa í femínískum skilningi. Í kapítalískum samfélögum rennur aðeins örlítið af gróðanum til vinnuaflsins, sama hvaða kyni það tilheyrir og sama hver fer með völdin í ólýðræðislega reknum fyritækjum auðvaldsins, á meðan það, vinnuaflið, rogast um með byrgðarnar og nú, á tímum nýfrjálshyggjunnar, einnig  með restina af molnandi velferðarkerfinu.  Í kapítalísku samfélagi eru byrgðar verkakvenna á mörkum hins þolanlega; lág laun gera það að verkum að þær þurfa oft að sinna tveimur störfum, jafnframt því að bera ábyrgð á heimilishaldi og öllum þeim ólaunuðu störfum sem þar eru unnin.

Hver getur haldið því fram að högum þessara kvenna, mínum högum, sé á einhvern hátt betur borgið vegna þess að Rannveig, Birna og Katrín séu viðurkenndir stórkapítalistar?

Það getur enginn lengur og það var auðvitað aldrei hægt; að krefja okkur um tryggð gangvart þessari ómerkilegu píkupólitík, að krefja okkur um að gefa upp á bátinn alla stéttavitund, alla alþjóðlega samstöðu með systrum okkar, píndum og smánuðum,  um samstöðu með okkar eigin afkvæmum sem fá oftar en ekki bara restarnar, það sem eftir er af okkur þegar kvöldið loksins kemur. Í þessari kröfu var og er  fólginn einhverskonar félagslegur sadismi (mig langar í einum grænum að benda ykkur á merkilega grein, On Social sadism, eftir rithöfundinn China Melville, birta í breska kommúnistaritinu Salvage),

krafa um aðdáuun á valdi sem er sjúkleg afbökun á eðli femínismans:
Líf okkar er undirselt kapítalismanum, fullt af baráttu, ströggli, sem orsakast af stéttakúgun kapítalísks samfélags og það er satt best að segja viðbjóðslegt að ætlast til þess að við, litlar og fátækar, finnum til einhverrar tengingar við þær, stórar og ríkar, fáránlegt að í æsilegri hringiðu eigin blankheita og reddinga sé ætlast til þess að við leiðum nokkru sinni hugann að þeim, nema þá til að hugleiða stöðu þeirra í kúgunarhírarkíinu.

Hver okkar er svo yfirgengilega naív, eftir allt sem á hefur gengið, að trúa því að fjölgun á Rannveigum og Katrínum í stjórnum kapítalískra fyrirtækja á Íslandi, að ef Ragnheiður Elín gætir sérstaklega að hvatningarorðum Birnu Einarsdóttur um að gæta ávallt að því tæknilega úrlausnarefni að passa kynjakvótann í stjórn fyrirtækja,
hver okkar trúir að með því sé verið að gæta að hagsmunum allra kvenna; fátækra kvenna, kvenna sem tilheyra lágstétt, kvenna sem tilheyra minnihlutahópum, td. óléttra hælisleitenda, fatlaðra kvenna, einstæðra mæðra, alls þess vinnuafls sem heldur þessu svokallaða velferðarsamfélagi uppi með því að vinna öll þessi konustörf, svo oft við óviðunandi aðstæður, fyrir konulaun? Kvenna sem hafa engin völd og eru aldrei í námundan við þau? Trúum við á brauðmolakenningu femínismans?  Trúum við því að valdastaða einnar konu í ofsafengnu auðvaldssamfélagi  geri autómatískt öllum gott? Trúm við því að með gælum og undirgefni fáum við okkar skerf af kökunni?
Gælur og undirgefni skila vinnuaflinu aldrei neinu nema níðingshætti og kúgun.

——

Nútíminn er á einhverju æðisgengnu undanhaldi útí tómið, veröldin molnar, bráðnar í kringum okkur, rykinu hefur verið þyrlað upp og við sjáum ekki svo vel hvað er að gerast, en við finnum að við erum að tapa. Maður finnur alltaf þegar maður er að tapa.
En í tapinu hugleiðum við stöðu okkar, að tapa er frelsandi, þá krefjumst við þess af okkur sjálfum að horfa yfir farinn veg, horfast í augu við mistökin og ósigrana og hefjast svo handa á nýjan leik:

Við að byggja upp nýja kvennahreyfingu, hreyfingu femínískra kvenna í stéttastríði.

Hreyfingu sem afneitar brauðmolakenningu nýfrjálshyggjunnar,
kenningu sem neitar að viðurkenna stétt sem lykilþátt í lífi kvenna, kenningu sem festir okkur í gildru dagdrauma, um meiri tíma, meiri pening, einhverntímann, einhverntímann,
kenningu sem hefur af okkur stéttavitundina, söguvitundina, vitundina um hetjudáðina sem er fólgin i því að vera fátæk og krefjast útópíu, vitundina um 8. mars, alþjóðlegan baráttudag verkakvenna, sem lögðu allt í sölurnar vegna staðfastrar vitneskju um sitt eigið stórkostlega og magnþrungna verðmæti.

Líf einnar manneskju er milljón sinnum meira virði en allt ríkidæmi auðugustu manneskju veraldar, sagði merkilegur maður eitt sinn og mikið er það satt. Mikið er líf mitt milljón sinnum meira virði en allir bónusarnir og arðránstekjurnar, mikið er líf ykkar allra milljón sinnum meira virði. Það er því sem næst óbærilegt að horfast í augu við yfirgengilegt virði okkar og paþólógískt arðránið á okkur.
Ekki meira af þvi, það er löngu komið nóg.

Nútíminn er á flótta, en við skulum hætta að hlaupa, fyrir þær, fyrir auðvaldið, við skulum stoppa og endurvekja æðisgengin og femínískan drauminn um útópíu, ekkert trickledown sull, heldur frelsunarverkefni hinnar sönnu femínísku hreyfingu.

Takk fyrir.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s