sorrý, enn eitt ávarp…

patrick murders card

Ávarp flutt tvisvar í dag við svona nokkuð góðar undirtektir:

Kæru félagar, lifi baráttan, lifi upprisan.

Lifi jörðin, fuglarnir, fiskarnir, trén, blómin, kisurnar, fólkið,
lifi laufblöðin;

Veturinn er búinn, sumarið komið,

Wintris kom og lagðist á gluggann okkar, eins og helstirnið Fiskfars, náfölt og skjálfandi, hræddi næstum úr okkur líftóruna, glennti upp augun og sagði here‘s Johnny,
sagði svo bæ og fór í frí,

og með því kvaddi  veturinn, feginn að vera laus, orðinn þreyttur á vitleysunni; plís, móðurgyðja, ég get ekki meir, það er ekki  í lagi með þetta fólk,

sumarið kom og upprisan og svo kom maí.

Kæru félagar,

gleðilegan dansdag, gleðilegan slagsmáladag, gleðilegan sleggjudag og hamarsdag, gleðilegan elddag, gleðilegan hnefadag, gleðilegan heiðingjadag, gleðilegan tilfinningadag, gleðilegan söngdag, gleðilegan sögudag, gleðilegan dag mannkynssögu um mannkyn, gleðilegan dag baráttunnar sem er eins og hringur sem er eins og fræ sem er eins og glóð.

Gleðilegan dag

verkafólks, verkalýðs, verkaskríls, dag öreigans, dag hinna blönku, þeirra fátæku,
dag þeirra sem þjást á leigumarkaði, dag skuldara, dag aðflutts vinnufólks,
á hlaupum undan hruninu heima hjá sér, í leit að örlítið mildara arðráni annarsstaðar, einhverjum sem vill kaupa vinnuaflið þeirra á niðursettu niðursetningaverði,

Gleðilegan dag burtrekins fólks, þeirra fórnanlegu, brottvísuðu,
fólks sem má ekki einu sinni prófa að skúra á Íslandi eða prófa að keyra strætó á Íslandi,
enginn veit samt afhverju nema yfirstéttin og embættismennirnir hennar
sem þramma um á stígvélum við undirleik auðvaldsbandsins Upplitsdjarfir Alþýðupiltar,
sem vann í Ísland got talent,
sem spila blindfullir bara tvö lög:
Ísland ögrum skorið og Píanó man eftir Billy Joel, til skiptis, afturábak,

Gleðilegan dag gamals fólks, lífeyrisþega, þeirra sem skrimta,
á meðan auðvaldsstjórar lífeyrissjóðanna eru ofsafengnir þátttakendur í kapítalismanum
og stofna aflandsfélög til að upplifa þessa eintöku auðkýfingsupplifun, það sést hverjir drekka aflandssjó,
til að upplifa eins og Björgólfur Thór og Patrick Bateman, til að búa í turninum Mossack Fonseca,
til að afneita HLUTveruleikanum allavega þrisvar sinnum Icesave, til að segja:
Sumir halda að þessi steinn sé steinn en sjáðu púff, hvar er steininn núna?
Til að verða abstraktisti og segja: Sumir halda að verður sé verkamaður launa sinna, en sjáðu, púff, hvar eru launin núna? Allavega ekki hér…

Gleðilegan dag barnanna sem eiga bara eitt par af skóm sem passa, barnanna sem eiga ekki heima í Bakkaflöt tvö,
barnanna sem eiga heima hjá mömmu og pabba sem eiga ekki neitt, ekki bakka, flöt eða Falson,
engan pening,
sem vita að tómstundastyrkur þrælakistunnar Reykjavíkurborgar dugar bara fyrir takkaskónum en hvernig á svo að borga félagsgjaldið og þátttökugjaldið og keppnisgjaldið á mótinu sem er sponsað af enn einn icehot punktur comm?

Gleðilegan dag þeirra sem dreymir um Lottómiða,
gleðilegan dag konunnar sem flutti hingað frá heitu landi langt í burtu og langar svo mikið að komast í heimsókn til heita landsins til að kyssa mömmu sína en á ekki neinn pening til að kaupa flugmiðann en á smá pening fyrir Lottómiða og vonina sem drepst aldrei því við erum þrátt fyrir allt saman mannfólk,

Gleðilegan dag konunnar sem flutti hingað frá Spáni til að vinna, afþví þú veist, ástandið er ekki svo gott á Spáni, gleðilegan dag konunnar sem flutti hingað frá Portúgal til að vinna, afþví þú veist, ástandið er ekki svo gott  í Portúgal,
gleðilegan dag konunnar sem flutti hingað frá Póllandi til að vinna afþví, þú veist, ástandið er ekki svo gott í Póllandi,
gleðilegan dag konunnar sem flutti hingað frá Úkraínu til að vinna, afþví þú veist, ástandið er ekki svo gott í Úkraínu,

gleðilegan dag þessara kvenna sem vinna fyrir oggulitlu íslensku konulaununum,

Gleðilegan dag þeirra sem búa í ástandinu

sem er ekki svo gott, sem álíta HLUTveruleikann veruleikann en ekki sjónblekkingu,

gleðilegan dag þeirra sem eru ekki sjónblekkingafólk, gleðilegan dag þeirra sem sjá auglýsingarnar frá Kviku UMBREYTINGABANKA og fyllast panikk, skynja hótunina í umbreytingunni, ó my god er ekki búið að umbreyta nóg, hverju á eiginlega að umbreyta næst;
Leikskólum í arðbæra fjárfestingu, krabbameini og sykursýki í vogunarsjóði með afleiður, Kattholti í pelsaverksmiðju; Elliheimilinu Grund í undirverktaka fyrir alþjóðlega pulsustórfyrirtækið Grandmas hotdogs.

Kæru félagar,

gleðilegan dag þeirra sem skilja að umbreytingin á veröldinni í kaunum slegna tötrahypju, til að kapítalistar geti grætt, er svo níðingsleg að hún hlýtur að taka enda,
Það er eina TINA-an; there is no alternative, kapítalisminn hlýtur að taka enda,

gleðilegan dag þeirra sem ætla að
skilja auðvaldið, kapítalismann og nýfrjálshyggjuna og skilja við auðvaldið, kapítalismann, nýfrjálshyggjuna,

gleðilegan dag þeirra sem ætla að byggja samfélag á umhyggju, empatíu, samstöðu, virðingu,
gleðilegan dag þeirra sem ætla að mætast við viðbjóðslegar stoðir turnsins Mossac Fonseca og hrinda honum um koll og horfa á hvernig blómstrið eina sprettur úr rústunum,

Gleðilegan þennan eina dag sem við eigum;

gleðilega baráttu
gleðilega upprisu
gleðilega samstöðu
gleðilega atlögu
gleðilega árás
gleðilega móbilíseríngu
gleðilega uppbyggingu
gleðilegt umhverfi
gleðilega fegurð
gleðilegt blóm,
gleðilegan sigur og
í kjölfar hans, gleðilegan allan tímann, alla dagana, alla veröldina sem við munum eignast.

Takk fyrir.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s