ávarp flutt 1. maí, á fundi IWW

1 versus restin

Félagar!

Það er til ógeðslega mikið af ógeðslega ríku fólki. Þau búa á ógeðslega mörgum stöðum útum alla veröld, það er allt morandi í þeim hvert sem við förum en þau eru ábyggilega ekki hér.
Ég ætla samt að ávarpa þau:

Hei þið ríku: Ekkert ykkar varð ríkt afþví að þið eruð svo dugleg og klár. Ekkert ykkar varð ríkt afþví að þið eruð búin að læra svo mikið í allskonar skólum, ríkidæmi ykkar sannar ekki að þið séuð merkilegri en annað fólk. Þvert á móti:

Þið eruð rík afþví ykkur finnst í lagi að arðræna. Afþví ykkur finnst alveg í fínasta lagi að stela, ekki bara auðnum sem fólk býr til handa ykkur, heldur öllum tíma fólks, andlegu og líkamlegu heilbrigði, fortíð og framtíð,
allir bónusarnir, allur arðurinn, allar þessar milljónir hér og milljarðar þar, eru ógreidd laun til vinnandi fólks, réttmæt eign hinna vinnandi stétta,
undirstaða lífs ykkar er arðránið,
líf ykkar er arðránið sjálft, sem er undirstaða kapítalismans, sem er ógæfa heimsins.

Félagar!

Það er til ógeðslega mikið af fátæku fólki.
Það er til ógeðslega miklu meira af ógeðslega fátæku fólki en ríku fólki. Það er til svo ógeðslega mikið af fátæku fólki að tilvera þess er offramboð og markaðsvirði lífs þess ekkert.
Markaðsvirði ekkert:
Það er allt í lagi að láta það drukkna, brenna, kafna, drepast á fjölbreyttan og margvíslegan hátt án þess að það komi nokkrum sérstaklega við. Það er hægt að láta það vinna inní ónýtum húsum við að sauma ónýt föt, það er hægt að láta 146 manneskjur brenna í New York árið 1911 við að sauma drasl í ónýtu húsi og það er hægt að láta 117 manneskjur brenna í Bangladesh árið 2012 við að sauma í ónýtu húsi.

Þetta kemur engum við vegna þess að það er alltaf hægt að ná sér í fleira fólk, uppsprettan er að því virðist ótæmandi, framboð meira en eftirspurn, þetta er svosem ekkert flókið, you’re worth what you’re worth sagði einn amerískur kapítalisti fyrir ekki svo löngu og rökstuddi með þeim orðum þá skoðun sína að það væri ekkert að því að borga vesalingum kannski bara einn dollar á tímann fyrir vinnuna sem þeir inntu af hendi.

Meðfætt, áskapað, eðlislægt virði manneskju, man einhver eftir því?

Það er til svo mikið af fátæku fólki, svei mér þá, ég held það sé til meira af því en peningum.
En þau eru ólíkt peningunum, einskis virði. Þegar þau td. hrúgast saman í báta til að reyna að sanna að þau, já, einnig þau, séu mennsk, og það sé þeim meira að segja meðfætt, dettur lausnamiðuðum einstaklingum helst í hug að sprengja bátana, til að sanna að nei, þið, fátæka fólk, eruð ekki mennsk, svoleiðis. Og það er ekki hægt að taka við þessu svokallaða fólki vegna þess að mitt í hinu stórfenglega verkefni nýfrjálshyggjunnar; að skrúfa að endingu alveg fyrir velferðarkranann, eru ríki ekki aflögu fær um smotteríis aur til að aðstoða aðframkomna aðkomumenn,
í hinu stórfenglega verkefni nýfrjálshyggjunnar Endurskipulaggning rikisfjármála eru ríki ekki aflögufær um smá aur vegna þess að því sem áður rann um pípulagnir verkefnisins Samfélag hefur nú verið beint í aðra átt og rennur glatt um pípulagnir verkefnisin Engir skattar, afnám skatta er forgangsmál, fyrir stórfyrirtæki og eitt prósentið. Enda eru þau sannarlega eins mikils virði og þau augljóslega eru, og í raun miklu miklu meira, ef við öll fáumst bara til að viðurkenna meðfætt, áskapað, eðlislægt virði þeirra.
Corporations are people my friend. People, not so much.

Félagar:

Í vetur bárust fréttir af því að eitt prósent mannkyns ætti helming allra auðæfa veraldarinnar. Og að eftir 23 ár yrði það búið að eignast allt, allan auð heimsins.

Ég er búin að hugsa um þetta, þessi 23 ár, alveg non-stop eiginlega. Þetta er svo fáránlegt. Eiginlega hlægilegt. Ég verð eins og fífl, skil ekki neitt, flissa bara.
23 ár. Hvað eigum við eiginlega að gera á 23 árum?

Við sem erum föst í einu því al-ógeðslegasta kerfi sem skráð hefur verið í  mannkynssöguna, sadísku kerfi, byggðu á rasisma, kvenhatri, þjófnaði, algjörri og endanlegri eyðileggingu,
Hér á Íslandi, hvað eigum við að gera,
á Íslandi þar sem þrjúhundruð og eitthvað þúsund búa saman á einni grjóthrúgu með einni lítilli borg með einni lítilli aðalgötu og ekki einu sinni einu góðu torgi en með æðislega ofsafenginni arðránsstétt,
arðránsstétt sem galar og frussar og lýgur: Vinnan gerir ykkur frjáls, vinniði, aumingjar, vinniði, kvíðna og stressaða fólk, ekki hætta, þið skuldið okkur allt, við ykkur ekkert, þið skuldið okkur fimm milljón króna hækkunina sem við vorum að enda við að greiða okkur sjálfum, sem er helmingi meira en þið fáið á einu ári, sem er hversu mikið minna en 23 milljónirnar sem við fáum á ári, bónusar og arðgreiðslur ekki meðtalin?
Hversu mikið er ótrúlega lítið?
Ótrúlega lítið, jafn lítið og 23.
Jafn ótrúlega lítið og 300.000,
sem gerir okkur ekki frjáls.
Félagar:

Þau sem á undan okkur komu, anarkistar og sósíalistar, börðust, lögðu líf sitt að veði, til að minnka og hemja arðránsmekkanismann.
Nú berjumst við víst fyrir því að fá 300.000 útborgaðar á mánuði, baráttan er svo sannarlega endalaus.
En undarlega íhaldssöm, finnst ykkur ekki? 300.000, þetta er hógvær krafa.
En þetta er þó krafa. Krafa er betri en kröfuleysi.
Félagar:
Ég ritstel frá sjálfri mér, ég ritstel frá hinum og þessum, allt sem ég segi hefur verið sagt óteljandi sinnum, af óteljandi manneskjum í næstum tvöhundruð ár. Baráttan er endalaus og þessvegna erum við alltaf að segja sama hlutinn; niður með auðvaldið, burt með arðránið, upp með fólkið, niður með svínin.
Baráttan er endalaus. Vegna þess að svo lengi sem kapítalisminn umvefur okkur með ömurleika sínum, verðum við arðrænd og hagnaðurinn sem fæst af því að stela frá okkur notaður til að auðga kapítalistana.

Það er til mikið af ógeðslega ríku fólki og ógeðslega mikið af ógeðslega fátæku fólki,
ótrúlega mikið af fólki sem á ekkert nema sig sjálft og hógværar kröfur um smotterí,
sem þau sem eiga allt heyra ekki,
ekki fyrr en þeim er sýnt að á bak við hógværar kröfur er ekki hógvært fólk, heldur mjög reitt fólk, vinnan hefur ekki gert þau frjáls heldur hlekkjað rækilega föst, og nú eru hlekkirnir farnir að vera óbærilega íþyngjandi eins og hlekkir hafa tilhneigingu til að verða.
Baráttan er endalaus, þau halda að henni verði lokið innan 23 ára, að þá verði þetta allt komið, verkefnið þeirra er á svo glæsilegri siglingu, en þau hafa rangt fyrir sér.
Því krafan hefur verið sett fram, hún er vissulega hógvær en hún verður það ekki lengi,

vegna þess að jafnvel þessari hógværu kröfu um 300.000 króna lágmarkslaun er hafnað. Og þá hljótum við öll að sjá að hógværð er tilgangslaus, þegar átt er í baráttu við fólk sem skilur bara græðgi,
þá hljótum við öll að hafna hógværð,
og þegar henni hefur verið hafnað, að endingu, þegar við sjáum enga hógværð þegar við lítum í spegilinn,
þá skulum við hittast, hvað ég hlakka til að hitta ykkur full metnaðar og brjálsemi,
og við segjum hvort við annað: Sjáiði ekki veisluna, hún er æðisgengin, þetta er veislan okkar.

Að lokum, orðsending til auðvaldsins, það  má eiga þessa orðsendingu alveg eitt, eins og risavaxinn bónus, ógnarstóra arðgreiðslu, hún hefur safnað vöxtum í 167 ár:

Í stað þessa munum við leyfa ykkur að stjórna um skeið. Segið fyrir um lög, vermið ykkur í geislum þeirrar háu tignar, sem þið hafið sjálfir skapað; bjóðið til veislufagnaðar í salarkynnum konunga og kvænist fögrum prinsessum – en gleymið ekki:
„Böðulinn stendur við dyrnar“.

Auglýsingar

aðfangadagur 1. maí

jón múli verkfall

-Every broke motherfucker finna form a gang
And when we come we takin everything-

Í stað þessa munum við leyfa ykkur að stjórna um skeið. Segið fyrir lög, vermið ykkur í geislum þeirrar háu tignar, sem þið hafið sjálfir skapað ykkur; bjóðið til veislufagnaðar í salarkynnum konunga og kvænist fögrum prinsessum – en gleymið ekki:
„Böðulinn stendur við dyrnar“.
Frengels.

zero tólerance, motherfokkers /gleðilegt sumar

Ég hef enn í heiðri hefðina um númeruðu liðina. Yfirleitt er ég mjög á móti númerum, nota frekar orð en tölustafi. Ég hef megnustu óbeit á því að vita nákvæmlega hverjar einhverjar upphæðir eða tölur eru og er mjög hrifin af almennu giski; útborguð laun: mjög lítil, uppsafnaðar skuldir: töluverðar, aldur: hækkar óðum, fyrri störf: fá, kílómetrar hlaupnir: er ekki lúði, tel ekki, kílómetar hjólaðir: er ekki lúði, tel ekki, hugsanir um gera eitthvað: endalausar, hugsanir um að ekkert sé gert: óteljandi, hugsanir um þörfina á að hugsa betri hugsanir: fjölmargar, betri hugsanir hugsaðar: örfáar. Og svo mætti lengi telja. Einu skiptin sem ég notast að einhverju ráði við tölur er þegar ég athuga hvað ég á mörg börn og ketti. 1,2,3,4. Ég gæti náttúrlega hætt að gera greinarmun á börnunum og köttunum og þyrfti þá ekki að tölusetja fjöldann, gæti sagt: smá slatti, ef ég væri spurð.

Allt fúnkerar ágætlega, svoleiðis, þrátt fyrir að ég notist ekki við tölur. Nema hér og í afstöðum mínum til gangverks heimsins, afþví ég er auðvitað og augljóslega nokkurskonar idjót og þarf að skipuleggja hugsanir mínar um veröldina og hatur á persónum og leikendum. Þá er best að vera með númeraða lista. Númeraði listinn gerir manni auðveldara að færa fólk og atburði upp og niður eftir honum. Mig minnir að ég hafi verið fremur stálpaður krakki, þvísemnæst unglingur, hér forðast ég auðvitað að tölusetja nákvæmlega aldur minn, þegar ég útbjó mér fyrst svona lista. Hann hét: Hverja myndi ég drepa. Á listanum voru aldrei fleiri en fimm, hér neyðist ég til að nota tölu, verkefnið þurfti að vera viðráðanlegt; sérvalin illmenni sem þvældust um veröldina og ollu uppnámi og hörmungum. Páfinn var ávallt á listanum, oftar en ekki í fyrsta sæti, aðrir færðust upp og niður, innaf og útaf. Hinn ameríski Gísli Freyr, Oliver North, er gott dæmi um mann sem heimsótti listann en staldraði stutt við. Ef maður hugar að hinu sögulega samhengi væri kannski tilvalið að endurnefna listann Listi hins blóðþyrsta og viljuga barns.

—–

Nr.1
Gleðilegt sumar, félagar. Megi laun ykkar hækka ógeðslega mikið og arðránstekjur hinna hverfa alveg. Ég vitna í félaga Boots: Let’s all get high from the income angle
og:
Met Donald Trump and he froze up. Standing on his Bentley yelling Pimps down, hoes up.
(Guð hvað ég elska hann Boots)

Nr. 2
Ég hef aldrei verið pacifisti og ég trúi ekkert að Jesú hafi verið það heldur. Það eru bara falsanir og lygar. Ef einhver slær mig þá slæ ég til baka, helst fastar. Svo sjáum við hvað gerist. Vonandi ekkert með spýtum og nöglum.

Nr. 3
Ég er með zeró tólerance pólicíu gangvart öllum djöfuls hómófóbum og skítavinum þeirra. Ég tel réttast að svipta þá öllum réttindum, gera eignir þeirra upptækar, senda þá til Vestmannaeyja og slíta svo öllu stjórnmálasambandi við Vestamannaeyjar.

Nr. 4
Nú er ég bara að hlusta á The Coup og er orðin alveg rugluð. Við vitnum þá í Rósu Lúx að vitna í Átjánda Brumair-íið (þarna neyðist ég til að nota tölu, allt fyrir Karl og Rósu):

…until finally that situation is created which renders all retreats impossible and conditions themselves cry out: ‘Hic Rhodus, hic salta!’ Here is the rose. And here we must dance!”

Ó blessaða stund dansins, megirðu koma fljótt.

Nr. 5
Ég er líka með zeró (núll er eina talan sem ég virkilega finn til einhverrar tengingar við, sem er heppilegt, því ég með mjög mikið af zeró tólerance gangvart hinu og þessu, td. auðsöfnun, mér finnst að allir eigi að eiga zeró) tólerance pólisíu gagnvart öllu NATÓ sjitti. ZERÓ og ÖLLU!
Þar af leiðandi er ég með zeró tólerance gagnvart Jens Stoltenberg. Þið munið kannski eftir honum Jens þegar hann var forsætisráðherra Noregs í tíð Anders Breivik. Þá hrifust margir af honum, fannst hann sýna norræna leiðtogahæfni á Lennonískan friðasúlumáta með því að segja Við svörum hatri með ást og Við skulum verða enn mennskari, við norðmenn.

Ég var afskaplega óhrifin af Jens og hrifning fólks á honum ærði mig smá, ef satt skal segja. Það var vegna þess að Jens var viljugur þátttakandi í árásunum á Líbíu, sem hann sagði vera alveg hreint frábæra þjálfun fyrir norska loftherinn. Afþví ég er idjót gat ég ekki skilið afhverju og hvernig Norðmenn áttu annars vegar að æfa lofther sinn með drápum á almenningi langt í burtu og hins vegar að æfa Jesúhæfileikana heima fyrir. Afþví ég er idjót skil ég ekki the hierarchy of human life og afþví ég get verið voðalega bókstafleg skil ég ekki hvernig einhver getur látið svona ganga upp í hausnum á sér. Þetta er dáldið annaðhvort eða fyrir mér.

En allavega, ég eiginlega hataði Jens þarna sumarið 2011 þegar vesalings börnin voru myrt í Útey og ég eiginlega fyrirleit þau sem upphófu hann sem mikinn leiðtoga. Á meðan ég var að hata og fyrirlíta átti norska ríkisstjórnin hans Jens í –miklu og nánu samtali- við NATÓ um hvað gera ætti við Libíu, og eins og seinna kom í ljós, hvað væri best fyrir Jens Stoltenberg að gera þegar hann væri hættur að boða ást og frið heima við. Öll komust að samkomulagi: það er best fyrir Jens Stoltenberg að gerast leiðtogi NATÓ og Líbía getur svo bara farið í rassgat, hverjum er ekki skítsama?

Þegar sú ákvörðun hafði verið gerð opinber fannst mér rétt að upgrade-a Jens úr flokki hinna ósköp venjulegu drullusokka í hóp þeirra sem sonur minn, sem ég hef ægilegt og mikið dálæti á, kallar industríal síkópata. Ef þið eruð ekki með á hreinu hvað svoleiðis er voru háttsettir nazistar td. industríal síkópatar. Til er fræg ræða, önnur af hinum svokölluðu Posen ræðum industríal síkópatans Heinrich Himmlers. Hún er fræg vegna þess að í henni er í fyrsta skipti, svo vitað sé til, opinskátt rætt um útrýmingu Þjóðverja á gyðingum og er því sönnum á því að ríkisstjórn Hitlers skipulagði endalausnina. Hún er líka fræg afþví að hugsanir Himmlers eru ótrúlega svakalegar og við förum að velta ýmsu fyrir okkur um það hvað felst í því að vera industríal síkópati/manneskja þegar við skoðum þær.
Þetta er á ensku, afþví að ég tala ekki þýsku og finn þetta ekki á íslensku:

I won’t watch it happen – that even one bit of putrefaction comes in contact with us, or takes root in us. On the contrary, where it might try to take root, we will burn it out together. Altogether, however, we can say, that we have fulfilled this most difficult duty for the love of our people. And our spirit, our soul, our character has not suffered injury from it.

(Mig langar bara eldsnöggt að sýna ykkur tilvitnun í Gísla Frey: Hafa ber í huga að manninum er einungis hæft að þykja vænt um sína nánustu, maka, börn, ættingja og svo framvegis, jafnvel þjóð ef þjóðin er lítil eins og Ísland. Lol og svo framvegis…)

Anders Breivik er síkópati sem hefði glaður gerst industríal. Heinrich Himmler var síkópati sem fékk sögulegt tækifæri til að gerast industríal. Jens Stoltenberg var drullusokkur með siðblindutendens sem fékk framatækifæri, tók því og gerðist þar með industríal síkópati. Og stýrir nú fyrirbæri því sem ber samtals ábyrgð á alveg afskaplega stórri líkhrúgu og dágóðum fjölda af steypurusli sem áður hétu lönd. Jens Stoltenberg er ríkur kall, sem borðar bara fínan mat, kaupir sér bara gasalega smart jakkaföt, kemst á marga sénsa, ferðast um víða veröld í einkaþotu, tekur sólrík og endurnærandi sumarfrí, fer í ræktina, passar uppá heilsuna, er boðið á allskonar sýningaropnanir, kaupir dýrar gjafir handa fjölskyldunni sinni og er eflaust mjög góður við hundinn sinn og ritarann. Meðfram því að lifa þessu innhaldaríka og skemmtilega lífi tekur hann ákvarðanir um að slátra alþýðu annara landa, afþví að veröldin minnkar stöðugt og Jens og félagar hans eru plássfrekir einstaklingar sem er yfirleitt nákvæmlega sama um örðuvísi fólk að drepast og ef margt öðruvísi fólk drepst er meira pláss fyrir fólk sem er ekki öðruvísi.
Jens Stoltenberg er fyrsta flokks industríal síkópati sem er ofarlega á mörgum listum hjá mér um þessar mundir.

Nr. 6
Um daginn hitti Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Jens Stoltenberg og knúsaði. Dagur kallaði Jens þvottekta jafnaðarmann. Aumingja jafnaðarmenn, að eiga svona leiðtoga og að aðhyllast svona fáránlega hugmyndafræði. Þvílík skömm.
Afþví að Dagur gerði þetta er ég núna með zeró tólerance pólisíu gagnvart honum. Hann fer samt auðvitað ekkert á klikk listann minn, með Tony Blair og GWB og Jens Stoltenberg. Hann fer bara á hræsnaralistann með Yoko Ono og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem þóttist hafa R2P og gerði loftárásir á Líbíu.
Nú mun ég ávallt tala um og minnast á það þegar Dagur knúsaði Jens þegar Dagur fer útí Viðey til að tendra á friðarsúlu tvískinnungsins. Nú mun ég einatt flissa þegar Dagur segir eitthvað dúllí.
Og ég tauta og þusa sem aldrei fyrr: megi Samfylkingin þurrkast út í næstu kosningum og næstu og næstu og næstu, ad infinitum.
jens og dagur og einhver goran

Nr. 7
Hvað er ég með margar þráhyggjur? Ja,þær gætu kannski verið færri. En hvers virði er líf án þráhyggju?

Nr. 8
Ég hef aldrei drepið neinn.

Nr. 9
Ég kveð ykkur með að ítreka nr. 1:
Gleðilegt sumar og vonandi dönsum við saman bráðlega, sum hægt og þokkafullt, sum hratt og ofsafengið, sum bara inní eigin höfðum, en öll á gröf auðvaldsins.

Um ábyrgð

Rósa Lúx um tækifærismennsku og fleira

Átjánda Brumair-íið

af heilum

Eins og svo oft áður er einungis hægt að hugsa í númeruðum liðum. Eins og svo oft áður er best að hugsa sem minnst. Að hugsa lætur mann svitna og gráta. Ég hugsa ekki, þessvegna er tilveran bærileg. Ég er lifandi, þessvegna svitna ég og græt, það suðar í heilanum, mig langar að jaðarsetja hann, mig langar að segja honum að fokka sér, mig langar að segja honum að fara heim til sín, láta mig í friði, ég þoli hann ekki, hann hlýðir ekki, hann lærir ekki réttu hlutina, hann kann ekki að læka, hann kann ekki að vera með, hann heldur að hann sé eitthvað sem hann er ekki, hann er ekki til friðs. Inní honum fljúga 1000 flugur, hann er rotnandi hræið af heila og í flugunum suðar jafn hátt og í honum, hann reynir stöðugt að rísa upp, skilur ekki að hann á að liggja, fastur undir martröðum kynslóðanna, fastur á hafsbotni mannkynssögunnar, hann suðar í mér stöðugt, hann suðar um pláss, um alltof mikið pláss, allt plássið mitt.

– – – – –

Einhverntímann sagði einhver brandara um frelsi, jafnrétti, bræðralag en ég er búin að gleyma því hvernig hann var.

– – – – –

1. Um forréttindi.
Að læra um forréttindi er mjög erfitt. Forréttindi eru sett saman úr fjölmörgu en meðal annars því að þurfa ekki að læra það sem þú vilt ekki læra. Þannig að ef þú nýtur forréttinda geturðu neitað að læra um forréttindin sem þú nýtur og þannig farið um hina sammannlegu tilveru algjörlega blind á eigin forréttindi. Kannski er réttara að segja að það að kenna um forréttindi sé mjög erfitt. Sérstaklega vegna þess að þau sem reyna að kenna eru yfirleitt án forréttinda og þau sem ættu að nema hafa þau og geta af þeim sökum neitað að læra.

2. Um brandara.
Hér stendur víst: Kóraninn er algjört drasl, hann stoppar ekki kúlur.

charlie h

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi brandari birtist eftir fjöldamorðin á mótmælendum í Egyptalandi, þar sem í það minnsta eitt þúsund manneskjur vorur myrtar á Rabaa al-Adawiya torgi, af herforingjastjórninni -okkar-, slatti brenndur lifandi. Í kjölfar þessarar slátrunar fylgdu -strong condemnations- frá vestrænum leiðtogum sem vita náttúrlega best af öllum hvenær er við hæfi að -strongly condemn- og hvenær er við hæfi að  -standa öll saman- og hvenær er við hæfi að gera innrás. Friðarverðlaunahafi Nóbels, Obama, herra Múlatti eins og sumir vilja kalla hann, sagði að þetta væri allt mjög slæmt og alls ekki í lagi og -urged people to show restraint- og þing Bandaríkjanna sendi svo einn og hálfan milljarð bandaríkjadollara til herforingjastjórnarinnar, svona til að sýna hversu strong the condemnation væri. Ekkert fordæmir betur en peningur.

En hvað um það, brandarinn stendur fyrir sínu, hann er sekúlar og upplýstur og í honum er hefð, það má ekki gleymast, evrópsk hefð og enginn kann betur að grína en Evrópa; brandaraheimsálfan Evrópa, hvílík álfa, enginn er eyland en sumar álfur eru eyjur, Evrópa, þar sem aldrei hefur neitt heyrst nema hlátur og fliss, við Evrópa, við hlægjum okkur inná og útaf listum viljugra, við hlægjum okkur inní og útúr nýlendum, inní og útúr vinnubúðum, inní og útúr þrælaskipum, inní og útúr ópíumstríðum, inní og útúr þúsund ára ríkjum, inní og útúr útrýmingarbúðum, inní og útúr Kongó og Perú, inní og útúr Víetnam, inní og útúr einhverjum upplifunum um dauð, brún börn og pabba þeirra að gráta, inní og útúr pyntifangelsum. Við hlægjum þegar við grátum og það kann enginn annar í öllum heiminum, þú þarft að vera upplýst á einstakan hátt og með hefð þér í liði til að kunna þá miklu list, að sjá hvað veröldin er vond, gráta oft og mikið en kunna svo að yppta öxlum, anda djúpt og skella uppúr, svona er lífið, á eyjunni Evrópu sem flýtur alltaf ofaná, eins og aðflutt vatnalilja á kaldri tjörn, þar sem litlir fiskar synda og bíða eftir litlum mat úr litlum dollum. Frelsi til að hlægja að heimsendi á meðan þú gefur litlu fiskunum pínkulítið fiskafóður, æ litlu fiskar, ef þið bara gætuð hlegið með mér. Frelsi til að hlægja jafn hátt og Voltaire að eigin fyndna brandara: Gyðingar eru aðeins fávísir villimenn, sem hafa lengi sameinað viðurstyggilega ágirnd með fyrirlitlegri hjátrú og eru haldnir óbilandi hatri á ölllum þeim sem bæði þola þá og gera þeim kleift að auðgast. Frelsi til að segja sama brandarann aftur og aftur, í gegnum aldirnar, með örlitlum áherslubreytingum, ekki of miklum þó, frelsi til að gleyma honum og geta þessvegna alltaf sagt hann í fyrsta skipti, frelsi til að hitta fólk og segja um það brandara, sama brandarann aftur og aftur og aftur.

Nr. 3
Um heimsborgara.
Á ferðum okkar um veröldina lærðum við að hið hegemóníska narratív vestræns frjálslyndis um íslam sem stærstu ógnina við tjáningarfrelsið, er satt og rétt. Samhengið og það sem að því lýtur er aðeins innflutta ólífan í drykknum okkar, við tyggjum hana og kyngjum áður en við förum að sötra. Mikið var það gott fyrir okkur, mikið var þetta skemmtilegt ferðalag, ólífan minnir á það, husker du oliven vi fik der nede?

Nr. 4
Um mannlega tilveru.
Sama fólk, alveg nákvæmlega sama fólk og brjálaðist vegna islamófóbíu útsendara auðvaldsins, þeirra Sveinbjargar og hinnar þarna, telur sig nú mikla mannréttindafrömuði og guðs útvalda vesturlandabúa og deilir islamófóbískum myndum í miklum ham og af miklli arfleiðar upprisu. Í upprisunni þarf það ekki lengur að skilja neitt, allra síst sig sjálft. Að segja the mind boggles dugir ekki lengur, svona industrial grade hræsni þarf eitthvað sem ég á ekki til.

En hér, hér er brandari. Gleðileg vesturlönd og fyndið nýtt ár.

 

– – – – –

 

Why I am not Charlie

Beware Bigotry – Free speech and the Zapiro Cartoons

Joe Sacco: On satire

Pseudo-explanations for a massacre

Is solidarity without identity possible?

Why Charlie Hebdo attack is not about Islam

Charlie Hebdo and western liberalism

allur bráðnauðsynlegur og viðeigandi ofsi

Einhverntímann í fortíðinni, eftir að AmeríKKKa hafði ákveðið að öllum sem vildu ekki koma með henni í orgíu yrði þá nauðgað, krafsaði Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra A-KKK, á minnisblað um endurbættar aðferðir við gagnaöflun hjá aröbum, þetta: Ég stend í átta tíma á dag. Stundum meira að segja tíu. Afhverju eru arabarnir bara látnir standa í fjóra tíma?

Þetta sagði Rumsfeld vegna þess að hann er spes týpa og notar þessvegna ekki venjulegt skrifborð sem maður situr við, heldur eitthvað sem við myndum kannski kalla púlt. Við þetta nokkurskonar púlt stendur hann daginn inn og út, og fannst þessvegna hálf kjánalegt að arabarnir væru bara látnir standa í fjóra tíma í búrunum sínum. Undir krafsið skrifaði hann svo upphafsstafina sína, D.R, svo að það væri alveg á hreinu að það væri hann sem stæði svona mikið en ekki D. C eða G.W.B.

– – – – –

Nú hlakka ég voðalega mikið til. Jú, til jólanna auðvitað, lengi lifi J.H.C en mest samt, allra allra mest til leiðara Morgunblaðsins, sem birtist á næstu dögum, kannski strax í fyrramálið, eins og mandarína í skó hjá sæmilega stilltu barni,

leiðarans þar sem Davíð Oddsson, stundum nefndur D.O., segir frá því að ekkert finnist honum notalegra í hádeginu í Hádegismóum, ekkert meira slakandi en að loka dyrunum að skrifstofunni, kveikja á Kátu ekkjunni eða óperunni um Ragnheiði biskupsdóttur og borða svo hádegismatinn með rassinum. Og af þeim sökum sé fráleitt að telja -rectal feeding- til pyntinga.

– – – – –  

Þetta er frámunalega vúlgert, ég sem var svo vel upp alin af kúltíveruðu fólki, fólki sem dó næstum þegar það heyrði mig átta ára gamla segja -kúkur- um skipstjórann á Bounty. Svoleiðis var ekki sagt.  En ég sagði það samt, mig langaði að prófa og hann, skipstjórinn var kúkur.
Og í allan dag er mig búið að langa að segja að Davíð Oddsson ætli að skifa leiðara þar sem hann segist borða með rassinum. (Þið sjáið að ég gæti verið vúlgerari).

Nú er ég búin að segja það. Mér finnst það fyndið. Ég er heldur ekki lengur ég; almættið leyfði mér ekki bara að kyssa sig, ég fékk líka að drekka úr spenanum þess; um leið og sólin skein á mig -hlý og þung sem skíragull- og við almættið kysstumst, ég með mínum ósköp venjulega munni og það með sínum útsprungna rósamunni, fékk ég líka að drekka úr svarta spenanum, alla bitru mjólkina, búna til úr þessari vondu veröld, þessu agalega myrkri, þessu undraverða ógeði sem mannleg tilvera er. Þannig að ég er ekki ég, með munninum bæði kyssti ég og saup og varð þá heit af trú og eins vúlger og mig langaði að vera þegar ég var átta.

Og biðst þessvegna fyrir á hverjum degi, takk fyrir að kossinn og sopann, sjáiði sólina þegar hún kemur upp, hvílík dýrð í hæstu hæðum, og sjáiði hvernig myrkrið gerir okkur öll eins og gerir okkur allt mögulegt, biður okkur um að kveikja í sér og skilja ekkert eftir nema ösku.

_torturas_Abu_Ghraib

23 ár, hræ tímans

Ég hefi tvisvar verið mögulega kannski næstum því dauð. Í fyrra skiptið var ég unglingur sem fór að detta í sundur. Saumarnir sem héldu mér saman fóru að rakna upp, ég losnaði öll í sundur. Þessu fylgdu agalegir verkir í heilanum, ég eyddi miklum tíma í að ímynda hversu frábært það væri ef ég gæti bara nuddað heilann í mér, að ég gæti stungið puttunum inní hausinn á mér og nuddað rækilega, þá myndi mér sennilega fara að líða betur. Því eins og allir vita er mjög notalegt að láta nudda sig, hefur eitthvað að gera með endorfín og svoleiðis. En því miður tókst mér ekki að finna út úr því hvernig ég gæti nuddað heilann og eitt kvöldið höfðu saumarnir sem héldu hausnum föstum við hálsinn raknað alveg upp og hausinn rúllaði af. Þá var farið með mig uppá spítala og ég geymd fyrst á gjörgæslu í tvo daga og svo í mánuð á betrunarhæli, svokölluðu, á meðan hausinn var saumaður aftur á. Á betrunarhælinu upplifði ég ýmislegt; þar voru td. góðar sturtur, maður gat setið á bekk í sturtuklefanum, sem var mjög gott fyrir mig, því ég var afskaplega þreytt á því að þurfa að standa upprétt. Svo fékk ég að sauma sjálf, ekki hausinn samt, heldur fallegt gyllt pils og silkipúða og sitthvað fleira. Áður hafði ég ekki verið mikið gefin fyrir saumaskap. Svo fékk ég að sitja í hring með öðru fólki og segja frá upplifunum. Eða réttara sagt, í hringnum lærði ég að segja ekki frá upplifunum, afþví mínar voru svo afskaplega ómerkilegar á meðan annarra voru það ekki; kynferðislegt ofbeldi, geðrof, fíkn og svo mætti lengi telja. Ég lærði að mannleg tilvera er þjáning og sorg, það að hausinn skyldi detta af var alls ekkert merkilegt, hvað þá óvenjulegt og ekki í frásögur færandi.

Að mánuði liðnum var talið að hausinn væri nokkuð vel festur á og ég var útskrifuð með gyllt pils og púða. Sem var bara mjög fínt, ég gekk frekar í pilsi en buxum og hafði alltaf verið hrifin af púðum.

– – – – – 

Árið umþb. eitthvað í kringum 2006 fór ég að fylgjast með íslensku internetunum, mig vantaði satt best að segja eitthvað að  hugsa um. Ég hafði tekið dvöl mína í Bandaríkjunum alvarlega; hlustað alvarlega á fréttir um innrásir, fréttir um pyntingar, fréttir um pólitískt ofstæki, fréttir um allskyns efnahagslega glæpi, fréttir um New Orleans og svarta fólkið þar sem mátti drukkna í friði sökum hins mikla frelsis sem það naut í svo ríkum mæli, og svo mætti lengi lengi telja. Tilveran var mjög alvarleg og ég tók hana alvarlega, enda ekkert grín að vera hvítingi í rasísku heimsveldi, ekkert grín að skilja loksins hvað forréttindi þýða.

En semsagt, 2006 var ég aðeins farin að slaka á kröfunum til sjálfrar mín um að vera alltaf með návæmar tölur látinna á hreinu  og tilbúin til að fylgjast með fréttum um annað en risasögulega atburði. Og þá beið mín Ísland á veraldarvefnum. Og þar hitti ég Gísla Frey. Hann var Frelsisvörnin. Hann var Doer, eins og fleiri um þær mundir. Hann var ýmislegt. Hann var harður ídeólóg. Sá harðasti, fyrir utan kannski Jón Val. Og hann var alltaf að tala um að Ernesto Che Guevara, minn góði vinur, væri fjöldamorðingi. Hann var ekki beint fyndinn, en maður flissaði samt, já maður flissaði, ekki í forundran, maður var lífsreyndur eftir að hafa hlustað á GWB, einnig þekktan sem frelsisvörnina, flytja ótal ræður og ekki mikil forundran eftir, eða jú samt, flissið var mjög blandað forundran. Furðublandin forundran.

Þegar ég sá svo Gísla í anddyri ráðuneytisins fyrir ári síðan, þar sem ég var ásamt nokkrum svokölluðum hræðum, þrátt fyrir forsíðufrétt hins svokallaða Fréttablaðs um að Tony Omos væri melludólgur, fylltist ég engri forundran. Ég ætlaði að kalla á hann: Jæja, ertu þá komin, sjálf Frelsisvörnin. En aðrar hræður þarna staddar höfðu merkilegri hluti að segja við Gísla, alvöru merkilega hluti um framkomu íslenskra stjórnvalda við öreiga á faraldsfæti, á örvæntingar flótta fæti, það var ekki við hæfi að vera með frammíköll og rifja upp brandara frá 2006 og 7. Og svo langaði mig allt í einu ekkert að kalla neitt á hann af því að hann tifaði einhvernveginn, hann lyfti sér stöðugt upp á tærnar, ekki faraldsfótinn heldur frelsistærnar og það var skrítið og ég hálf vorkenndi honum afþví að empatían er furðulegt fyrirbæri. Það alfurðulegasta. Að vera allt í einu farin að vorkenna sjálfri Frelsisvörninni, sem aldrei vorkenndi neinum; nema eina prósentinu, hinu frjálsa prósenti, glóbal prósentinu sem þarf aldrei nein vegabréf eða uppáskriftir um gott innræti og þátttökuleysi í glæpastarfsemi, þarf ekkert nema peningana sína og Frelsisvarnir allra landa, sem standa sameinaðar í að gefa þeim öll lönd.

Stundum vorkenni ég líka nazistum, ef þeir létu ungir glepjast af hugmyndafræðinni. Heilaþvottur er mega powerful, þessvegna er hann kallaður heilaþvottur. Stundum get ég vorkennt næstum öllu. Þessvegna kallaði ég ekkert á Gísla, ekkert diss, engan derring, vildi ekki grípa fram í fyrir þeim sem sögðu hluti af viti og afþví að ég á bágt með að vera með skæting við fólk sem tifar af stressi. Seinna er svo hægt að spyrja sig sjálft: Afhverju sagðirðu ekki eitthvað ljótt og afhverju ætli hann hafði tifað svona af stressi?

– – – – – 

Fyrir viku síðan sá ég ský á hvolfi. Himininn logaði og eitt stórt ský var á hvolfi. Það er auðvitað erfitt að átta sig á því hvort ský eru á hvolfi en ég vissi strax að svo var vegna þess að mér varð hræðilega óglatt við að horfa á það.

– – – – – 

Ekkert getur komið á óvart, árið er 2014 og allt sem getur gerst gerist.

Barnamorðingjar fá sérstök barnaverðlaun, kannski fyrir að hafa ekki drepið fleiri börn. En auðvitað er sannarlega hægt að vera þakklát fyrir það.

Kona sem ætla að taka að sér að hjálpa sérstaklega konum sem verða fyrir heimilsofbeldi klæðir sig í búning og ákveður að trúa ekki konu sem varð fyrir heimilsofbeldi og konur sem fyrst og fremst ætla að hugsa um konur í öllum samhengjunum, hinum stóru og smáu, ákveða að styðja konuna sem trúði ekki konunni sem varð fyrir ofbeldi. En það kemur ekkert á óvart.

Ekkert kemur á óvart, heimilið í landinu eru heimili þeirra sem alltaf mæta á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum, alveg sama hvað á hefur dunið á heimilinu, mæta alltaf á jólahlaðborðið, villibráðarhlaðborðið þar sem boðið er uppá eitthvað kjöt sem enginn getur eða vill nefna, medium rare, þeirra sem gubba í lófann við veisluborðið, standa ekki upp til að fara á klósettið og fá sér smá kalt vatn, heldur kyngja og brosa svo til sessunautanna og segja: Ég var ekkert að gubba útaf kjötinu. Og fá sér svo meira rauðvín og reyna, þegar líða tekur á kvöldið, að ná augnsambandi við Gauleiter Þór, nei afsakið, ég meina auðvitað Guðlaug Þór.

Ekkert kemur á óvart, það að tugþúsundir dukkna í hafinu, á leiðinni til Evrópu, kemur ekkert á óvart, þeirra bíður engin Frelsisstytta, engin eyja, hvorki Ellis né Ísland. Þau drukkna bara. Svart og brúnt fólk hefur verið að drukkna öldum saman á leið til vesturheims, því ætti það að koma á óvart?

Ekkert kemur á óvart og er það ekki bara ok? Vissulega saknar maður örlítið æsingsins sem fylgdi því að verða hissa á eina prósentinu og útsendurum þess, en æsingur er ekki góður þegar til langs tíma er litið. Og við erum svo sannarlega að líta til langs tíma, eða allavega svo langs tíma sem þóknast okkar merkilegu overlords sem nú stýra gangi himintunglanna og ráða því hvort skýin snúa upp eða niður, allavega eins langs tíma og þau vilja úthluta okkur svokölluðum hræðum.

Hausinn dettur af, það er ekkert mekilegt við það, alltaf að gerast. Nú eigum við Gísli það sameiginlegt að hafa séð hausinn rúlla út á gólf. Minn var festur á og það verður hans líka.

Ekkert kemur á óvart.

Nema það að sólin kemur upp og sest svo. Og að almættið skapaði himinn og jörð á eins löngum tíma og því þótti sjálfu þurfa. Og að öll vötn renna til sjávar. Og að fuglarnir í stóru trjánum í garðinum heima hjá mér syngja. Og að kettirnir eru mjúkir. Og að Ameríka er þarna ennþá, án mín. Og að ég elska hana og sakna hennar á næstum hverjum degi.

Og að eftir 23 ár mun eitt prósentið eiga allan auð veraldar. Allan auð veraldar. Það kemur satt best að segja örlítið á óvart. Hversu stutt við eigum eftir. Hversu rifan á glugganum er örlítil. Brátt mun hún lokast alveg. Ég hélt að við hefðum aðeins lengri tíma.

En við höfum engan tíma. Það kemur á endanum ekkert á óvart.

– – – – –

Ég sá fyrir mér að ég myndi dansa við lítinn bálköst þegar hér væri komið sögu. Að Gísli sæti inní sumarbústaðnum sem hann dreymdi um, að hlusta á U2, sem var uppáhaldshljómsveit Frelsisvarnarinnar og að ég dansaði fyrir utan, heit af litla bálinu mínu. En ég er ekkert að dansa. Ég er gömul. Ekkert kemur mér lengur á óvart, ég dansa sjaldan.

– – – –

Þetta er tileinkað Che Guevara, sem Frelsisvörnin, í sínu mikla húbris, var alltaf að kalla fjöldamorðingja. Og ef ég þyrði, almættisins vegna, siðprýðinnar vegna, væri þetta kannski líka tileinkað þeim sem reyna að komast yfir hafið en mæta Frelsisvörnum allrar landa, sameinuðum og komast ekkert, nema í mannkynssöguna sem sönnun á einhverju sem aldrei átti að sanna.

I don’t know why we had to lose
The ones who took so little space
They’re still waiting for the east
To cover what we can’t erase

Og þetta; þetta hefði ég kannski hlustað á fyrir utan sumarbústaðinn, heit af bálinu. Þetta er tileinkað rúllandi unglingshausnum mínum. Honum hefði þótt þetta mjög smart. En það er auðvitað frekar augljóst og kemur ekki á óvart.

 

and we stood at god’s feet, equal, as we are*

Félagar; ég hef komist að því að best er að hafa bloggfærslur í númeruðum liðum. Þá getur maður verið bæði latur og heimskur og blandað öllu saman, sagt bara oggulítið um hvert atriði, sloppið auðveldlega eins og einhver djöfuls skattaskjólskapítalisti, eins og aumingi.

– – – – –

a jane eyre PDVD_003

Í fyrsta lagi:
Sökum þess að ég er kjélling er ég á túr. Í dag er fyrsti í túr. Helgin fór í það sem stundum er kallað PMS af feðraveldinu en ég vil frekar kalla Via Dolorosa. Á Via Dolorosa gerist margt, eins og forðum daga. Td. er hægt að horfa tvisvar í röð á Jane Eyre, Fassbender útgáfuna. En ekki útaf honum, ekki pláss fyrir neitt svoleiðis á Via Dolorosa, heldur vegna Jane og tilveru hennar, þjáningarinnar, sorgarinnar, einstæðingsskapar hennar. Þjáningin, sjáiði til, hana eigum við konurnar allavega sameiginlega með Jesú. Að vera kona er að þjást; Jesú þjáist að eilífu í mannkynssögunni, píndur og kraminn, með blóð lekandi útúr mörgum götum og líka við, konurnar, píndar og lekandi. Það má nú aldeilis fella nokkur yfir því, ekki satt?

Á Via Dolorosa er líka hægt að liggja uppí rúmi og horfa útum gluggann á bláan himinn og skæla örlítið yfir því að maður sé inni en ætti að vera úti. Ó grimmi blái himinn, afhverju þarftu að vera svona vondur við mig? Það er líka hægt að hugsa um nammi og afhverju maður eigi ekki neitt, að í mesta lagi eigi maður suðusúkkulaði sem dugar ekki til neins á þessari leið. Gerir ekkert nema minna á að hægt væri að baka smákökur ef maður ætti ekki svona bágt. Það hefur verið grátið af minni ástæðum, það er engin skömm að segja frá því.

Svo er hægt að lesa. En Via Dolorosa er engin eyðieyja þar sem hægt er að vera þakklát fyrir að hafa í það minnsta bók með sér í litla bakpokanum svo maður geti látið hugann reika. Í fyrsta lagi er maður ekki með bakpoka með sér, heldur heila bölvun heils helmings mannkyns. Í öðru lagi velur almættið fyrir mann hvað maður á að lesa á Via Dolorosa. Þannig hefur það alltaf verið.

Nú var það engin smáræðis bók, The half has never been told: Slavery and the making of American capitalism. Hún er monumental og það eru engar ýkjur, um þrælahaldið í Bandaríkjunum, um fólkið sem stolið til að vinna og um fólkið sem græddi og græddi, um landið sem græddi og græddi á því að stela fólki, alvöru lifandi fólki til að láta það vinna frá því að það fæddist og þangað til það dó. Þvílíkt og annað eins, skal ég segja ykkur, en ég get varla sagt neitt meira afþví orðin mín festast í hálsinum á mér eða skríða uppí nefið á mér og reyna að potast útum augum á mér, í fljótandi formi, ég verð öll götótt og fer að leka. Og skammast mín fyrir að vera eitthvað að bulla um Via Dolorosa. Og get svo bara blótað, eins og þegar ég fæddi börnin, að fæða er að þjást, að fæðast kona er að þjást, að lesa þessa bók er að þjást, eins og þegar við vorum lítil og sáum í fyrsta skipti myndir úr útrýmingarbúðum, sáum fyrst myndirnar af augunum þeirra, þau störðu á okkur með þessum risastóru augum og við gleymdum að anda, það brotnaði eitthvað inní heilanum á okkur og við gátum ekki hætt að horfa í augun á þeim. Svoleiðis er þessi bók, þú gleymir að anda. Og allt sem þú veist um þrælahald er allt í einu ekki neitt, þú veist ekkert. Þessi bók segir við þig, eins og augun í fólkinu þegar þú varst lítil; haltu áfram, ekki hætta að horfa á okkur, þú veist ekkert, væna mín, ekki neitt, svo endilega farðu að grenja, væluskjóða, en það er kannski rétt að láta þig vita að þú ert ekki að fara að hætta því neitt strax aftur.

Svoleiðis er bókin, hún lætur mann fatta, það er eitt að vita og annað að fatta, eitt að vita af þrælahaldinu og annað að fatta maskínuna, risastóru pyntinga vélina sem gerði hvítt fólk ríkt og kramdi svart fólk. Maður fattar alveg, once and for all, maskínuna, og einhver rödd segir við mann: Mannstu, var ekki öllum kennt að ástæðan fyrir því að Þriðja ríkið var svona -Verra en allt annað- var sú að það var maskína og í því er óhugnaðurinn fólginn? Sjáðu þá þessa maskínu, sérðu hvað hún er stór? Hvað ætlarðu að segja um hana? Það þýðir ekkert að væla bara.

Ef þið viljið fá bókina sendið mér þá tölvupóst.

Hér ljóð eftir Charlotte Delbo, hún var ein af þeim sem störðu á okkur með risastóru augunum þegar við vorum lítil, ég tileinka bókinni ljóðið:

O you who know
did you know that hunger makes the eyes sparkle that thirst dims
them
O you who know
did you know that you can see your mother dead
and not shed a tear
O you who know
did you know that in the morning you wish for death
and in the evening you fear it
O you who know
did you know that a day is longer than a year
a minute longer than a lifetime
O you who know
did you know that legs are more vulnerable than eyes
nerves harder than bones
the heart firmer than steel
Did you know that the stones of the road do not weep
that there is one word only for dread
one for anguish
Did you know that suffering is limitless
that horror cannot be circumscribed
Did you know this
You who know.

Í annan stað:
Þetta las ég líka um helgina:

Hvers vegna gera samfélög mannréttinda og mannúðar loftárásir?

Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um styrkleika mjúklyndis og veikleika harðlyndis á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 15. október og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, talar um birtingarmyndir ófriðar fyrir konur og börn í Afganistan en hún er nýkomin heim eftir hálfs árs vinnu í Afganistan á vegum friðargæslunnar sem kynjasérfræðingur hjá NATO.

Ég veit að ég er alltaf að segja Mind Boggled en Mind Boggled! Inga Dóra sem er framkvæmdarstýra kvennastarfs Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vinnur líka fyrir Nató, sem kynjasérfræðingur. Kannski ræður ykkar heili alveg við þetta en minn gerir það alls ekki. Ég ætla ekkert að vera að þreyta ykkur með upptalningum á tölum um konur sem Nató hefur drepið, td. í Afganistan þegar þær hafa verið að þvælast að sækja eldivið, læt duga að segja Slatti, slatti hefur verið drepinn fyrir að vera kellingar sem eru svo vitlausar að vera afganskar kellingar. (Það er kannski dauðasök, enda frámunalega heimskulegt).

Er þetta í lagi? Um helgina þegar ég las þetta í blaðinu varð ég gasalega æst og fannst þetta alls ekki í lagi. En þá var ég við upphaf Via Dolorosa og kannski full agíteruð. Svo skil ég ekki frama og framalíf. Það er eitt af því sem ég skil verst af öllu. En það sem ég skil alveg verst af öllu er þetta: Hvernig er hægt að vera að vinna fyrir samtök sem segjast ma. ætla að -að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum- og líka fyrir Nató? Má það? Er ekki eitthvað svona -code of honour- sem Sameinuðu þjóðakonu konur þurfa að starfa eftir? Ef ekki, er þá ekki bráðnauðsynlegt að slíku verði komið á? Ég gef Unicef á Íslandi pening í hverjum mánuði, reyndar alveg oggupoggu af því Reykjavíkurborg tímir ekki að borga mér nema minnstu oggupoggu laun í heimi, og mér finnst voðalega óþægilegt að hugsa til þess að einhver yfirmenneskja þar geti farið til að vinna hjá einhverjum glæpasamtökum og komið svo aftur til baka í vinnuna hjá Unicef, við að plana hvernig best er að hjálpa börnum.

Þannig að ég spyr: er -code of honour- fyrir starfsfólk hjá Sameinuðu Þjóðunum á Íslandi, sem bannar að starfsmenn samtakanna vinni einnig fyrir glæpasamtök? Eða er svo mikilvægt að næra svokallaða ævintýragirni starfsfólksins að allt annað lendir í öðru sæti?

Hér er stórgóð grein eftir mannfræðingsprófessorskall í Kanda, í henni spyr hann nokkurra spurninga, sem mér finnst að margir ættu að spyrja sjálfa sig:

The real challenge now is to question our assumptions and envision or acknowledge existing alternatives that further solidarity, collaboration, and reciprocity without the paternalism and Eurocentrism of the “white man’s burden”.

One way to proceed is by questioning why helping others should lead to work abroad. Do you really have any special skills to offer other than the ability to articulate good intentions? Has your assistance been requested by those who would presumably benefit from it? How well do you understand a different society that you can permit yourself to undertake potentially transformative action? What are your motives, and do you think the organization(s) you support, or for which you work, share the same motives? If it is a question of solidarity, is the solidarity spontaneous and one-sided, or the product of actual dialogue and mutual understanding? Why would you not choose to work at home, where presumably you are not a stranger, nor an intruder?

iii:
Félagar, þegar þið eruð spurð hvað ykkur hafi fundist um einhvern leik eða hvort þið eigið ykkur uppáhaldslið er ávallt best að svara með þessu: Hvaða leik? og Nei og ég vona að þau tapi öll.

*-Do you think I am an automaton? — a machine without feelings? and can bear to have my morsel of bread snatched from my lips, and my drop of living water dashed from my cup? Do you think, because I am poor, obscure, plain, and little, I am soulless and heartless? You think wrong! — I have as much soul as you — and full as much heart! And if God had gifted me with some beauty and much wealth, I should have made it as hard for you to leave me, as it is now for me to leave you. I am not talking to you now through the medium of custom, conventionalities, nor even of mortal flesh: it is my spirit that addresses your spirit; just as if both had passed through the grave, and we stood at God’s feet, equal — as we are!-

Jane Eyre í Jane Eyre eftir Charlotte Brönte.